„Ég hef aldrei upplifað jafn mikið á einni viku“

Kristín Hildur Ragnarsdóttir er mikill ferðaunnandi og hefur ferðast víða, …
Kristín Hildur Ragnarsdóttir er mikill ferðaunnandi og hefur ferðast víða, bæði innanlands og erlendis. Samsett mynd

Fjármálahagfræðingurinn Kristín Hildur Ragnarsdóttir hefur alla tíð haft mikinn áhuga á ferðalögum. Hún hefur ferðast víða bæði innanlands og erlendis, en með árunum segist Kristín hafa öðlast nýja sýn á ferðalög og hvað þau geta raunverulega haft jákvæð áhrif á lífið. 

„Það er ótrúlegt þegar maður áttar sig á því eftir gott ferðalag hvað það hefur gefið manni mikið – maður kann betur að meta rútínuna og sér heimilið sitt oft í nýju ljósi. Það getur búið til margar góðar minningar að fara úr daglegu rútínunni þar sem flest gengur sinn vanagang yfir í að sjá og prófa nýja hluti,“ segir Kristín .

Kristín starfar sem fræðslustjóri hjá Íslandsbanka og er meðlimur í fræðsluvettvanginum Fortuna Invest, en í frítíma sínum nýtur hún þess að fara í fjallgöngur, kanna nýjar slóðir bæði á Íslandi og erlendis, og upplifa nýja menningu á spennandi áfangastöðum. 

Kristín Hildur í Santa Barbara í Kaliforníu.
Kristín Hildur í Santa Barbara í Kaliforníu.

Hvernig ferðalögum ert þú hrifnust af?

„Veit ekki hvort það sé merki um að ég sé að þroskast (og eldast) en ég kann betur og betur að meta ferðalög sem eru blanda af hreyfingu og fríi. Annars myndi ég alltaf kjósa borgarferð umfram sólarlandaferð.“

Kristín er hrifnust af ferðalögum sem innihalda bæði hreyfingu og …
Kristín er hrifnust af ferðalögum sem innihalda bæði hreyfingu og frí.

Hvert er eftirminnilegasta ferðalagið erlendis?

„Rétt fyrir jólin 2022 fór ég til Japan í gegnum prógram sem heitir MIRAI. Ég sá það auglýst í gegnum Háskóla Íslands og mæli mikið með því fyrir háskólanema að taka þátt. Í ferðinni heimsóttum við bæði Tókýó og Osaka og ég hef aldrei upplifað jafn mikið á einni viku.“

Eftirminnilegasta ferðalag Kristínar hingað til er ferðalag sem hún fór …
Eftirminnilegasta ferðalag Kristínar hingað til er ferðalag sem hún fór í árið 2022 til Japan.

„Við fengum að kynnast menningunni, sögunni, nýju fólki, heimsækja stór fyrirtæki og háskóla sem var algjör draumur. Það má vissulega líta á þetta sem skólaferð því dagskráin var þétt yfir daginn og á kvöldin nýttum við tímann vel í að skoða annað sem var ekki inni í dagskránni. Síðan var nægur tími til að vinna upp svefninn í flugvélinni á leiðinni heim, enda 13 tíma ferðalag.“

Ferðalagið frá Japan tók heilar 13 klukkustundir.
Ferðalagið frá Japan tók heilar 13 klukkustundir.

En innanlands?

„Ég fór í dagsferð á Fimmvörðuhálsinn fyrir tveimur árum með vinnunni og tók tvær vinkonur mínar með mér. Ef ég fæ að vitna í landvörðinn þá sagði hún að við hefðum fengið „fallegasta dag ársins“ – það er fátt sem toppar góðan félagsskap og Ísland að sumri til.

Síðan fór ég síðasta sumar með vinahópnum í Fljótin í Skagafirði í fyrsta skipti, það var ferð sem nærði sálina.“

Vinkonurnar voru sannarlega heppnar með veður þegar þær fóru Fimmvörðuhálsinn.
Vinkonurnar voru sannarlega heppnar með veður þegar þær fóru Fimmvörðuhálsinn.

Uppáhaldsborg í Evrópu?

„París og Köben – mjög dæmigert svar, en ég á bara svo margar góðar minningar þaðan.“

En utan Evrópu?

„Tókýó, ef ég lýsti því ekki nægilega vel hér fyrir ofan, þvílík upplifun sem þessi borg var.“

Tókýó heillaði Kristínu upp úr skónum, enda segir hún það …
Tókýó heillaði Kristínu upp úr skónum, enda segir hún það hafa verið mikla upplifun að ferðast þar.

Uppáhaldsstaðir á Íslandi?

„Sundlaugin Laugaskarði, Fossvogsdalurinn og síðan eru Vestfirðirnir alveg einstakir.“

Kristín á nokkra uppáhaldsstaði á Íslandi.
Kristín á nokkra uppáhaldsstaði á Íslandi.

Besti matur sem þú hefur fengið á ferðalagi?

„Hvar sem ég er stödd, þá er fátt sem toppar góða pítsu eða góðan fisk. Það fyrsta sem kemur upp í hugann er veitingastaðurinn Café George í Amsterdam, stemningin á staðnum var eins og að vera staddur í bíómynd.

Þau voru með 70‘s lagalista í gangi og fólk var að syngja með þrátt fyrir að klukkan hafi bara verið í kringum kvöldmatarleytið. Við ætluðum fyrst bara að fá okkur einn drykk en enduðum á að borða líka. Maturinn, sem var mjög góður, varð líklega enn betri í þessari stemningu.“

Kristín segir fátt toppa góða pítsu eða góðan fisk.
Kristín segir fátt toppa góða pítsu eða góðan fisk.

Hefur þú lent í einhverju hættulegu á ferðalagi?

„Myndi frekar segja óþægilegu en hættulegu, sérstaklega fyrir kvíðapésa. Við fórum til Bandaríkjanna fjórir vinir, leigðum bílaleigubíl og keyrðum strandlengjuna. Þegar við komum til San Diego tókum við ranga beygju og enduðum á landamærunum við Mexíkó, kennum GPS-tækinu um það.

Verðirnir á landamærunum sögðu að ef við ætluðum að komast til baka þá þyrftum við að keyra í gegnum Tijuana og fara í gegnum landamærin aftur. GPS-tækið hætti að virka þegar við keyrðum yfir, símasambandið datt út og við höfðum ekki keypt tryggingu til þess að fara með bílinn til Mexíkó.

Í stuttu máli var ég með miklar áhyggjur af því að við kæmumst ekki til baka og það er enn gert grín af viðbrögðunum mínum yfir þessu öllu saman. Vegabréfin komu okkur þó aftur til baka, þannig að lærdómurinn þarna var að stóla ekki alltaf á tæknina og muna eftir vegabréfinu.“

Kristín sagði frá óheppilegu atviki sem hún lenti í. Sem …
Kristín sagði frá óheppilegu atviki sem hún lenti í. Sem betur fer endaði þó allt vel.

Hvað er ómissandi í flugvélinni?

„Svefngríma og ferðapúði – þá er ég í topp málum.“

Hvert dreymir þig um að fara?

„Draumastaðirnir eru Kýótó, Höfðaborg, Róm og ferð til Mexíkó, sem er aðeins betur skipulögð en sú sem ég kom inn á hér á undan. Á Íslandi væri það ferð til Aðalvíkur, geri það vonandi einn daginn.“

Áfangastaðirnir sem Kristínu dreymir um að heimsækja eru sannarlega spennandi.
Áfangastaðirnir sem Kristínu dreymir um að heimsækja eru sannarlega spennandi.

Eru einhver ferðalög á dagskrá hjá þér í vor eða sumar?

„Siggi Stormur nefndi í viðtali um daginn að hann væri óvenju bjartsýnn fyrir sumarið, verður maður ekki að treysta því að hann verði sannspár. Það er orðið árlegt að fara í allavega eina lengri fjallgöngu, eina ferð til Vestmannaeyja og svo er systir mín að fara gifta sig í Fljótshlíð – ég get ekki beðið eftir að gráta úr mér augun þar.“

Kristín er spennt fyrir sumrinu og ætlar að treysta því …
Kristín er spennt fyrir sumrinu og ætlar að treysta því að veðurguðirnir verði með okkur í liði.

Ertu með einhver góð fjármálaráð þegar kemur að ferðalögum?

„Ætli það sé ekki gott skipulag sem skilar mestu þegar kemur að sparnaði í ferðalögum, hvort sem það er að bóka ferðina tímanlega, undirbúa nesti fyrir innanlandsferðalögin eða vera með gilt sjúkrakort ef eitthvað kemur upp á.

Þegar verið er að greiða í posa erlendis, og maður fær val um að greiða í íslenskri mynt eða gjaldmiðli viðkomandi lands, er alla jafna dýrara að velja íslensku upphæðina. Það getur verið gott að hafa þetta á bakvið eyrað.“

Kristín deilir góðum ráðum með lesendum.
Kristín deilir góðum ráðum með lesendum.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert