„Þekktu Doctor Victor frá litla Íslandi“

Victor Guðmundsson, læknir og tónlistarmaður, hefur verið að gera það gott í Kína sem tónlistarmaður. Í lok vikunnar birti stærsta sjónvarpsstöðin í Kína innslög þar sem fylgst var með Victori í Kína.

Victor, eða Doctor Victor eins og hann kallar sig í tónlistarheiminum, segir nokkrar ástæður fyrir velgengni sinni í Kína. 

„Það sem ég hef heyrt er að þau hafa mjög gaman af skandinavíska stílnum í tónlistinni minni og sérstaklega hvernig ég blanda kínverskum „elementum“ við mína tónlist. Fyrsta verkefnið sem ég gerði var einmitt þemalag fyrir Vetrarólympíuleikana í Peking 2022 og þá vann ég með kínverskum tónlistarmönnum og blandaði okkar stílum saman. Seinna verkefnið sem ég tók þátt í var að gera þemalag fyrir geimferðaáætlun Kína. Þar vann ég tónlist með frábærri kínverskri söngkonu sem heitir Nerissa Wang og einum þekktasta guzheng hljóðfæraleikara Kína, henni Lucy Luan, en guzheng er kínverskt hljóðfæri með sérstakan hljóm. Ég hef mjög gaman að því að vinna með mismunandi tónlistarfólki um allan heim og ég held að fólki finnist líka mjög gaman að heyra blöndu af tónlistarstefnum.“

Tónlist Victors rataði í útvarp í Kína og út frá því var hann beðinn um að semja lög fyrir stór tilefni í landinu. 

„Runólfur Oddson, ræðismaður og umboðsmaður Jessenius Faculty of Medicine læknaskólans í Slóvakíu, þekkir vel til í Kína og hefur verið þar oft. Hann hafði kynnt tónlist mína fyrir einum vinsælasta útvarpsmanni í Kína sem er góður vinur hans. Í framhaldi af því var tónlist mín komin í reglulega spilun í útvarpi þar úti og mikill áhugi að fá mig í heimsókn. Þetta leiddi til þess að þau höfðu samband við Runólf um að fá mig í að taka þátt í að gera þemalag fyrir Vetrarólympíuleikana í Peking 2022 og seinna verkefnið tengt geimferðaráætlunum í Kína. Þemalagið fyrir Vetrarólympíuleikana sló í gegn og fékk yfir 900 milljónir spilana á ýmsum miðlum og þemalagið fyrir geimferðaráætlun Kína vakti líka mikla lukku. Þetta opnar nýjar víddir og það er mjög áhugavert að vinna með tónlistarfólki frá öðrum löndum og sérstaklega frá Kína með öllum þeirra áhugaverðu hljóðfærum og topptónlistarfólki.“ 

Victor í Kína. Hann hefur komið þangað nokkrum sinnum í …
Victor í Kína. Hann hefur komið þangað nokkrum sinnum í tengslum við tónlistarverkefni. Ljósmynd/Aðsend

Heiður að fara í viðtöl á stærstu sjónvarpsstöð í Kína

Ertu orðinn frægur í Kína?

„Ég segi það nú ekki, en ég hafði mjög gaman að því þegar flugfreyjur í Air China á leiðinni til Peking stoppuðu mig til að fá mynd – þekktu Doctor Victor frá litla Íslandi. Ég fékk annars frábærar móttökur þegar ég kom út og það var mikill heiður að fá boð um að koma í viðtöl á China Global Television Network (CGTN) sem er stærsta sjónvarpsstöðin í Kína og í rauninni smá súrrealísk upplifun, en ég hitti fullt af frábæru fólki sem ég er í góðu sambandi við og stefni á að fara meira út til Kína,“ segir Victor.  

Tekin voru viðtöl við Victor síðast þegar hann fór til …
Tekin voru viðtöl við Victor síðast þegar hann fór til Kína sem sýnd voru í kínversku sjónvarpi í vikunni. Ljósmynd/Aðsend

„Það er tæpt ár síðan þemalagið tengt geimferðadeginum í Kína kom út og viðtölin sem voru tekin þegar mér var boðið út í nóvember á síðasta ári koma út núna í tilefni af árs afmæli,“ segir Victor spurður út í viðtölin sem komu út í vikunni. 

„Eitt viðtalið fylgist með því þegar ég fékk að prófa að gera við postulín, sem er aldagömul hefð hjá Kínverjum og var merkileg upplifun. En hitt viðtalið var svo tekið upp þegar mér var boðið í heimsókn í Beijing Contemporary Music Academy, en þar hitti ég hópinn á bakvið geimferðaáætlun og var svo með kynningu fyrir skólann um tónlistina mína, læknisfræði, heilsu og Ísland.“  

Peking er frábær

Hvernig kanntu við þig í Kína?

„Ég kann mjög vel við mig í Kína. Þetta er mjög spennandi og framandi staður, frábær matur og gott fólk. Þetta er að sjálfsögðu risastórt land, svo ég á eftir að heimsækja fullt af stöðum, en Peking var frábær. Ég kynntist mikið af tónlistarfólki og listamönnum á ferð minni um Kína, en maður finnur fyrir mikilli vinsemd að vera frá Íslandi eða „Bing Dao“ eins og Kínverjarnir kalla það. Það var mikill heiður að fá að heimsækja CGTN sem er stærsta fjölmiðlastöð í Kína. Ég heimsótti líka þjóðminjasafn Kína sem var mjög áhugavert, fór á tónleika og prófaði ýmsan mat, en kínverskur matur í Kína er magnaður.“

Victor stefnir á að halda áfram að vinna áfram með …
Victor stefnir á að halda áfram að vinna áfram með kínversku listafólki. Ljósmynd/Aðsend

Eru fleiri spennandi verkefni tengd Kína í farvatninu?

„Það eru mjög spennandi verkefni framundan og það er mikill áhugi frá þeim að tengja saman þessa tvo heima - tónlist og menningu. En það er von á heimsókn frá frábæru tónlistarfólki frá Kína til Íslands bráðlega sem ég er að vinna með og þau hafa rætt það að bóka mig á tónlistarhátíðir þar úti. Kínverjar hafa mikinn áhuga á Íslandi og sögu okkar, og finnst mjög spennandi að koma til Íslands, en ég mæli einnig mikið með að fólk kíki til Kína því það er vægast sagt magnað land,“ segir Victor. 

Fyrir utan verkefni tengd Kína er nóg að gera hjá lækninum og tónlistarmanninum. Hann er að spila mikið og er með útvarpsþáttinn Doctor Recommended á FM957 einu sinni í mánuði. „En fyrir utan tónlistina þá er ég að vinna í nýjum og spennandi hlutum í læknisfræðinni þar sem ég hef brennandi áhuga á að fyrirbyggjandi læknisfræði og að létta álagið í heilbrigðiskerfinu. Og svo á ég von á tvíburum bráðlega sem verður stærsta „útgáfan“ mín hingað til,“ segir Victor. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert