Minnka flækjustigið við hleðslustöðina

Ólafur Davíð Guðmundsson, tæknistjóri rafmagns hjá Orkunni, Hafrún Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri …
Ólafur Davíð Guðmundsson, tæknistjóri rafmagns hjá Orkunni, Hafrún Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri e1, og Guðmundur Ingi Þorsteinsson, framkvæmdastjóri sölu og þróunar hjá Orkunni.

Íslenski tæknisprotinn e1 hefur núna stigið skref sem ætti að létta rafbílaeigendum lífið.

Morgunblaðið hefur áður fjallað um e1 en þetta unga félag hefur það að markmiði að breyta landslagi íslenska hleðslustöðvamarkaðarins og heldur úti samnefndu snjallforriti sem skapar n.k. deilihagkerfi fyrir íslenska hleðsluinnviði. Má nota forrit e1 bæði til að finna lausar hleðslustöðvar og eins til að greiða fyrir hleðsluna.

Nýjasta framfaraskrefið felur í sér að greiðsla getur farið fram með sjálfvirkum hætti þegar raf- eða tengiltvinnbíll er hlaðinn í stöð þar sem þessi tæknilausn hefur verið virkjuð og eru það hleðslustöðvar Orkunnar sem ríða á vaðið.

Hafrún Þorvaldsdóttir er meðstofnandi og framkvæmdastjóri e1 og segir hún að með þessu sé verið að gera upplifun notenda svipaða því og eigendur Tesla-bifreiða eiga að venjast frá Tesla-hleðslustöðvum, en þær stöðvar eru búnar kerfi sem greinir hvaða bíl hefur verið stungið í samband og heldur utan um orkunotkun og greiðslu á sjálfvirkan hátt.

„Við köllum þetta sjálfvirka greiðslu við hleðslu, og einfalt er að virkja þessa nýju þjónustu í forritinu. Reiknast okkur til að um 80% allra rafbíla á Íslandi geti notað þessa lausn, og allar hleðslustöðvar sem fullnægja tæknilegum kröfum fyrir greiðslumiðlun geta sömuleiðis látið virkja þennan eiginleika,“ útskýrir Hafrún.

Þurfa hvorki að snerta veskið né símann

Það er eitt af helstu markmiðum e1 að gera notkun hleðslustöðva sem einfaldasta en Hafrún bendir á að allur gangur sé á því hve mörg handtök fylgja því að greiða fyrir hleðsluna. „Hjá sumum þarf að hlaða niður sérstöku snjallforriti og skanna QR-kóða, eða að tengja verður snjallforritið við lykil sem notaður er til að ganga frá greiðslunni. Enn aðrir biðja um greiðslu með korti eða að viðskiptavinir sæki lykilinn í veskið í símanum með Apple og Google Wallet,“ útskýrir Hafrún og bætir við að vonandi muni fleiri eigendur hleðslustöðva fylgja fordæmi Orkunnar á komandi vikum og mánuðum.

Það er tiltölulega auðvelt fyrir neytandann að virkja sjálfvirku greiðsluna. Fyrst þarf að setja upp e1-snjallsímaforritið og síðan stinga rafbílnum í samband við hleðslustöð þar sem þjónustan hefur verið virkjuð. Forritið biður þá um staðfestingu um að mega nota sjálfvirka greiðslu eftirleiðis. Með samstarfinu við Orkuna er þessi handhæga leið til að hlaða þegar í boði á 7 hraðhleðslustöðvum víðs vegar um höfuðborgarsvæðið, á Akureyri og í Keflavík, sem bjóða upp á 350 til 500 kW tengingu, og allt sem þarf er að stinga bílnum í samband.

Hafrún segir að með e1-forritinu megi m.a. sjá hvar finna má lausa hleðslustöð og einnig bera saman verð. Þá sé hægt að fylgjast með því í símanum hvernig hleðslunni vindur fram og fá tilkynningu þegar bíllinn er fullhlaðinn. „Við leggjum ríka áherslu á gagnsæi og eftir að sjálfvirk greiðsla hefur verið virkjuð hafa notendur eftir sem áður skýrar upplýsingar um verðskrá og notkun á hverjum stað.“

Vísar Hafrún á upplýsingasíðuna EV-database.org þar sem fólk getur flett upp tæknilegum upplýsingum um allar helstu gerðir rafbíla og séð hvort bíllinn á heimilinu styður við sjálfvirka greiðslu en á ensku kallast þessi lausn „Autocharge“.

Hér að neðan má finna myndskeið sem sýnir hvernig þjónustan er virkjuð í forriti e1.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: