JLR eignast hlut í fyrirtæki sem gerir við og endurnýtir bílarafhlöður

Rafbíllinn Jaguar I-Pace.
Rafbíllinn Jaguar I-Pace.

InMotion Ventures; fjárfestingarsjóður í eigu Jaguar Land Rover, hefur ákveðið að fjárfesta 1,2 milljónum Bandaríkjadala í brasilíska nýsköpunarfyrirtækinu Energy Source, sem sérhæfir sig í viðgerðum og endurvinnslu á notuðum lithium-ion rafhlöðum. Þetta er fyrsta fjárfesting InMotion Ventures í Brasilíu þar sem leitast er við að styðja við vöxt og auka afkastagetu Energy Source svo það geti aukið umfang starfsemi sinnar til hagsbóta fyrir umhverfið.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Jaguar Land Rover.

Hafa framleitt um 10 megavött af raforku

Energy Source er í tilkynningunni sagt hafa náð gríðarlegum árangri í að lengja líftíma notaðra rafhlaða, bæði með viðgerðum og endurnýtingu einstakra íhluta og hráefna úr ónýtum rafhlöðum til nýtingar í aðrar sem gengið geta í endurnýjun lífdaga. Sem dæmi megi nefna að endurnýjaðar rafhlöður frá Energy Source hafi framleitt samtals um 10 MW/h af raforku frá því að fyrirtækið var sett á laggir fyrir 7 árum. Fyritækið hafi á sama tíma endurunnið um 700 tonn af rafhlöðum og leitt til sparnaðar á losun 1.600 tonna af kolefnum sem annars hefðu farið út í andrúmsloftið.

Dregur úr námugrefti

Starfsemi Energy Source er í tilkynningunni sögð nýtast einkar vel frumframleiðendum á borð við rafbílaframleiðendur. Ástæðan sé sá mikli ávinningur sem endurnýting og viðgerðar rafhlöður geta haft í för með sér þegar skipta þarf út gallaðri rafhlöðu í nýjum eða nýlegum rafbílum, enda geti verð nýrrar rafhlöðu numið allt að 70% af heildarvirði bílsins.

Í tilkynningunni kemur fram að lausnir Energy Source auki líftíma rafhlaða og geti dregið úr þörf fyrir ný og ónotuð hráefni sem frumframleiðsla á nýjum rafhlöðum krefst. Þá bjóði lausnir Energy Source einnig upp á uppsetningu rafhlöðuknúinna hleðslustöðva með uppgerðum rafhlöðum, sem sparað geti orku í almenna dreifikerfinu.

mbl.is