Gott atvinnulíf grundvöllur fyrir hagvöxt

Eggert-Festi
Eggert-Festi

Fyrir fjórtán árum hóf Creditinfo að velja íslensk fyrirtæki á lista yfir Framúrskarandi fyrirtæki að undangengnum fjölda skilyrða og síðan þá hefur það orðið keppikefli margra fyrirtækja að komast á listann. Það gerist sjaldnast af sjálfu sér enda komast eingöngu um 2,5% allra fyrirtækja á listann að sögn Hrefnu Sigfinnsdóttur, framkvæmdastjóra Creditinfo. „Í ár er listinn örlítið breyttur frá því í fyrra og til að mynda eru 1.006 félög á listanum í ár samanborið við 932 félög í fyrra. Það er því fjölgun í ár sem er gaman að segja frá. Það eru 148 félög sem eru alveg ný og hafa aldrei áður verið á listanum og að sama skapi er 121 félag sem datt út á milli ára. Það er í raun engin ein ástæða fyrir því að þau detta út en algengasta ástæðan er ársniðurstaðan og rekstrarhagnaðurinn,“ segir Hrefna og bætir við að hafa beri í huga að hér sé hún að tala um rekstur fyrirtækja árið 2022.

„Svo eru um 55 fyrirtæki sem hafa alltaf verið á lista yfir Framúrskarandi fyrirtæki, sem er sérstaklega góður árangur. Á listanum í ár eru hlutfallslega færri ferðaþjónustufyrirtæki, smásölufyrirtæki og sjávarútvegsfyrirtæki en áður. En ef við berum saman ársreikningsstærðirnar á milli ára þá sjáum við að meðalhagnaður fyrirtækja á listanum var 11% lægri árið 2022 en hann var árið 2021. Á sama tíma lækkaði miðgildi hagnaðar um 4%. Það bendir til að vægi þeirra sem hagnast mest hafi aukist milli ára.“

Mikilvæg vottun

Hrefna talar um að það hafi mjög mikla merkingu fyrir fyrirtæki að komast á lista yfir Framúrskarandi fyrirtæki og það getur haft jákvæð áhrif á reksturinn. „Til að mynda hefur vottun Creditinfo jákvæð áhrif á starfsöryggi í fyrirtækjum og hún getur laðað að nýtt starfsfólk en flestir vilja vinna hjá fyrirtæki sem gengur vel og er með rekstraröryggi. Vottunin getur líka skipt sköpum upp á aðgengi að fjármagni bæði frá birgjum og líka frá bönkum. Svo vitum við til þess að fyrirtæki hafa getað nýtt sér þessa vottun til að ná sér í nýja birgja erlendis og efla viðskiptasambönd við núverandi birgja.

Ég veit líka um eina mjög góða sögu af stóru heildsölufyrirtæki sem varð fyrir algjöru höggi í sjóðsstreymi út af gjaldeyrishöftum í kjölfar efnahagshrunsins. Bankarnir voru ekki farnir að opna á ábyrgðir aftur eins og fyrir hrun og þá sýndi þetta fyrirtæki bara Framúrskarandi vottunina frá Creditinfo og komst aftur af stað mikið fyrr en margir aðrir,“ segir Hrefna og bætir við að það geri heilmikið fyrir stemningu á vinnustað þegar fyrirtæki fær rammann frá Creditinfo og það má sjá svona ramma hangandi uppi á mörgum vinnustöðum sem hafa vottunina.

Ekki alltaf skráður framkvæmdastjóri

Aðspurð hvað sé mælikvarði á góðan rekstur segir Hrefna að lengi hafi verið horft á hvernig lánshæfi fyrirtæki sé með en það geti Creditinfo séð í grunni sínum. „Svo er mikilvægt að hafa skilað ársreikningum á réttum tíma, að fyrirtækið sýni ábyrgð og fari að lögum og eins að það sé skráður framkvæmdastjóri hjá fyrirtækinu. Það kom mér svolítið á óvart að það er alls ekki alltaf. Með því að veita þessa vottun þá höfum við kannski ýtt á að fyrirtæki skrái hjá sér framkvæmdastjóra og skili ársreikningi á réttum tíma. Svo er best að vera auðvitað búin/n að sýna og sanna að þú hafir burði, að fyrirtækið sé búið að reka sig jákvætt í að minnsta kosti þrjú ár og sé komið með ákveðna lágmarksveltu eða í kringum 55 milljónir.

Þegar horft er til þess hvort fyrirtæki sé framúrskarandi þá er líka horft á skuldir, að fyrirtæki sé ekki of skuldsett því við vitum hvað það getur verið hættulegt að vera með alltof miklar skuldir á efnahagsreikningnum. Ef það kemur smá samdráttur getur það verið neikvætt þannig að við gerum ráð fyrir að eiginfjárhlutfallið sé allavega 20% og að það séu líka komnar eignir inn á efnahagsreikninginn, 110 milljónir hefur verið viðmiðið hjá okkur. En svo þegar maður tekur loftmyndina á þetta allt saman og fer að hugsa um hvað það er að vera virkilega framúrskarandi þá er það líka að vera í góðu sambandi við sitt nærumhverfi, að fyrirtækið sé ekki að brjóta lög eins og jafnréttislög, að komið sé vel fram við starfsfólkið og þess háttar en það skiptir líka máli. Og sömuleiðis að það séu ekki einhverjar stórfelldar lögreglurannsóknir á fyrirtækinu.“

Vera sem áætlar sjálfbærni

Hrefna viðurkennir fúslega að það geti verið erfitt fyrir Creditinfo að ætla að vera dómari og meta svona huglæga þætti en þau hafi komið með góða lausn. „Við ákváðum að leysa þetta á ákveðinn hátt og okkur fannst rétt að byrja á stórum fyrirtækjum þannig að fyrir tveimur árum ákváðum við að beina sjálfbærnisspurningum, spurningum um umhverfismálin, félagslegu þættina og stjórnarhættina til stærstu fyrirtækja landsins. Þá horfðum við á fyrirtæki sem veltu meira en tíu milljörðum af því að yfirleitt eiga stór fyrirtæki meira af þessum upplýsingum. Þetta er því smá hvati og síðan sjáum við að sjálfbærniliðurinn er á fleygiferð þannig að það eru fleiri og fleiri fyrirtæki sem eiga þessar upplýsingar þannig að við ákváðum í ár að beina spurningunum til fleiri aðila. Nú erum við að spyrja öll fyrirtæki sem velta meira en fimm milljörðum þannig að við fjölguðum mjög í flokknum sem þurfti að svara þessum spurningum.

Við sjálf rekum svo fjölmiðlavakt þannig að við getum líka séð ef það er eitthvað á lokametrunum sem er mjög erfitt fyrir samfélagið að kyngja sem framúrskarandi, þá höfum við leyft okkur að kippa út fyrirtækjum á síðustu stundu. Þetta getur alveg verið tvíbent og örugglega smá umdeilt en við erum að reyna að gera þetta eins faglega og við getum. Og bráðum munum við gera þessar kröfur á öll íslensk fyrirtæki og við erum sjálf búin að áætla þessar upplýsingar fyrir öll íslensk rekstrarfélög með nýrri vöru sem við köllum Veru. Þar má sjá helstu sjálfbærniupplýsingar fyrir öll íslensk fyrirtæki sem eru í virkum rekstri.

Og þótt fyrirtækin séu lítil þá erum við samt búin að áætla þessa hluti nokkuð nákvæmlega út frá gögnum sem við erum með. Atvinnugreinar í nágrannalöndunum eru mjög svipaðar þannig að við gátum keypt nokkuð stórt gagnasett til þess að koma með grófa áætlun um gögn eins og kolefnislosun en síðan geta fyrirtækin svarað nokkrum spurningum og þá eru upplýsingarnar orðnar nákvæmari. Þannig munum við leysa vanda sem mun raungerast núna á næstunni því að það eru komin ný lög um þessa þætti.“

Atvinnumenn í atvinnulífinu

Þann 25. október verður haldin gleðihátíð, eins og Hrefna orðar það, í Hörpu til að fagna þessum frábæra árangri með fyrirtækjunum sem eru á lista yfir Framúrskarandi fyrirtæki í ár. „Við eigum von á yfir þúsund manns og þetta verður algjör hátíð. Forsvarsmenn fyrirtækja mæta og taka oft með sér lykilstarfsmenn. Segja má að þetta sé uppskeruhátíð fyrir góðan rekstur. Við sem þjóð erum ofboðslega dugleg að beina sjónum að því sem er neikvætt en allavega þarna í heilan dag erum við eingöngu að beina sjónum að því sem er jákvætt. Það er grundvöllur fyrir hagvöxt að við rekum hérna blómlegt atvinnulíf. Ég held líka að það geti verið hvatning að skoða svona lista fyrir fólk sem ætlar sér að stofna fyrirtæki því á listanum er heilmikið af góðum fyrirmyndum. En dagurinn verður góður hvort heldur sem er og ég hlakka til að taka á móti þessum atvinnumönnum í atvinnulífinu.“

mbl.is
Samstarfsaðilar