429 Curvy ehf.

Stærðarflokkur Lítið
Röð innan flokks 16
Landshluti Höfuðborgarsvæði
Atvinnugrein Sérfræðileg, vísindaleg og tæknileg starfsemi
Starfsemi Sérhæfð hönnun
Framkvæmdastjóri Hólmfríður Guðmundsdóttir
Fyrri ár á listanum Engin
Framúrskarandi 2022

Hvernig gengur reksturinn?

Eignir 162.126
Skuldir 40.015
Eigið fé 122.111
Eiginfjárhlutfall 75,3%
Allar fjárhæðir eru í þúsundum króna

Eigendur og eignarhald

Þekktir hluthafar 2
Endanlegir eigendur 2
Eignarhlutur í öðrum félögum 0
Endanleg eign í öðrum félögum 0

Lánshæfismat félaga í sömu grein

Meðallánshæfi félaga í atvinnugreininni Sérhæfð hönnun

pila

Tiltölulega áhættulítil

Meira um fyrirtækið hjá CreditInfo

Verslunin var fyrst bara tvær fataslár

Hólmfríður Guðmundsdóttir (t.v.) með móður sinni og meðeiganda, Elínu Ósk …
Hólmfríður Guðmundsdóttir (t.v.) með móður sinni og meðeiganda, Elínu Ósk Halldórsdóttur. Curvy varð fyrst til sem netverslun og sló fljótt í gegn. Úrvalið hefur aldrei verið betra. Eggert Jóhannesson

Árið 2010 kom Hólmfríður Guðmundsdóttir auga á gat á markaðinum. Hún tók af skarið, byrjaði rekstur, og er starfsemin í dag í miklum blóma og verslunin Curvy komin í hóp Framúrskarandi fyrirtækja.

„Ég var 24 ára nýbökuð móðir og hafði meðgangan valdið því að líkami minn hafði breyst. Ég hafði brennandi áhuga á tísku en rak mig á að ég gat ekki lengur gengið inn í hvaða verslun sem var og fundið föt í minni stærð, og ég verð að segja að það var svolítið áfall,“ segir Hólmfríður söguna.

„Á þessum tíma buðu fáar verslanir stærri fatastærðir og fannst mér þær ekki ná að höfða nógu vel til ungra kvenna. Þarna sá ég tækifæri til að finna farveg fyrir áhuga minn á tísku og fatnaði, en ég hef líka allta tíð haft gaman af verslunar- og sölustörfum og var með reynslu af vefsíðugerð og forritun vefverslana.“

Hólmfríður bar hugmyndina undir ungar konur í svipaðri stöðu og voru þær á sömu skoðun: framboðið af tískufatnaði í stærri stærðum væri of lítið.

„Loks ráðfærði ég mig við hana móður mína, Elínu Ósk Halldórsdóttur, sem hefur mikla reynslu í viðskiptum og bar hugmyndina undir hana. Hún var hikandi í fyrstu, og var ekki viss um að margir myndu vilja kaupa föt á netinu en lét til leiðast, lagði til hlutafé og stofnaði verslunina með mér.“

Segir Hólmfríður að á þessum tíma hafi netverslun á Íslandi verið mjög skammt á veg komin og fáar íslenskar netverslanir sem seldu fatnað.

„Ég var rúmlega ár að undirbúa opnunina; finna réttu vörurnar, hanna vefverslunina og koma öllu í rétt horf. Samhliða þeirri vinnu hélt ég úti tískubloggi, með áherslu á jákvæða líkamsímynd. Þar setti ég líka inn hugmyndir að skemmtilegum fatasamsetningum og hvatti konur til að vera óhræddar við að prófa nýja hluti í klæðaburði. Bloggið hjálpaði mér líka að skapa sýnileika og ná til væntanlegs kaupendahóps,“ útskýrir hún.

„Í fyrstu atlögu var verslunin ekki stærri en svo að lagerinn rúmaðist á tveimur fataslám. Ég setti færslu á bloggið í mars 2011 þar sem ég benti á að verslunin væri farin í loftið og það hafði ekki liðið klukkustund þegar fyrsta pöntunin barst.“

Hjá Curvy er lögð áhersla á að afgreiðslufólkið þekki vel …
Hjá Curvy er lögð áhersla á að afgreiðslufólkið þekki vel þarfir viðskiptavinanna og bjóði þeim upp á ánægjulega verslunarupplifun. Eggert Jóhannesson

Þurftu æ fleiri fermetra

Reksturinn óx jafnt og þétt enda viðskiptahópurinn stærri en Hólmfríður bjóst við og samkeppnin ekki mikil.

„Á þeim tíma sem liðinn er frá stofnun Curvy hafa margar almennar tískuverslanir teygt stærðirnar sínar aðeins ofar, en fáar fara upp í þær stærðir sem ég býð upp á,“ segir Hólmfríður og slumpar á að tæpur þriðjungur íslenskra kvenna gæti fallið undir markhóp Curvy. Því miður er ekki tekið tillit til mismunandi líkamslögunar hjá mörgum fataverslunum.

„Oft virðist sem farið sé eftir erlendum stöðlum sem passa ekki við okkur. Við erum nefnilega ekki allar steyptar í sama formið. Íslenskar konur eru einfaldlega víkingakonur. Við erum valkyrjur og þar af leiðandi öðruvísi í vextinum. Það vita margar konur hvað það getur tekið á sálarlífið að fara á milli búða og eiga erfitt með að finna sér flík í réttri stærð eða sem passar sínum vexti. Þá er allt önnur upplifun fyrir konur að mæta í sérverslun með stærðir og snið við hæfi og vita að þar geta þær notið sín og fundið nóg af fallegum og klæðilegum flíkum sem passa.“

Þurfa að finna góða lausn á heimsendingum

Að reka íslenska netverslun hefur bæði kosti og galla. Hólmfríður segir að hár sendingarkostnaður hafi lengi þvælst fyrir versluninni og að vandasamt hafi verið að finna bestu lausnina.

„Við prófuðum okkur áfram og sáum fljótlega að best væri að hafa heimsendingu innifalda í verðinu, ef verslað er fyrir ákveðna lágmarksupphæð. Að rukka sérstaklega sendingarkostnað hefur þau áhrif að viðskiptavinurinn klárar síður kaupin eftir að hafa raðað í körfuna,“ útskýrir Hólmfríður en ef vöru er skilað greiðir viðskiptavinur sendingarkostað til okkar eða kemur með vöruna í búðina til okkar. Sendingarkostnaðurinn vegur þungt og því skiptir miklu að lágmarka líkurnar á skilum.

„Þar munar mestu um að hafa upplýsingarnar um hverja flík sem skýrastar, veita nákvæma lýsingu, góðar myndir og stærðartöflu til viðmiðunar. Ef tiltekin vara er kannski óvenjustór í sniðinu, eða smærri en venjan er fyrir tilteknar stærðir, þá tökum við það vandlega fram og ráðleggjum viðskiptavinum að taka stærra eða minna númer en venjulega. Svo erum við auðvitað alltaf til taks bæði á vefnum og símleiðis til að veita nánari upplýsingar og svara öllum spurningum,“ segir Hólmfríður.

„Síðast en ekki síst notum við samfélagsmiðla mikið til að máta og sýna vörur. Við stelpurnar í búðinni erum alls konar í laginu og margir viðskiptavinir, sérstaklega úti á landi, tala um hvað það hjálpar þeim að sjá vöruna betur. “

Hólmfríður bætir við að samkeppnin á póstsendingamarkaði hafi harðnað mikið í kórónuveirufaraldrinum, netverslunum til hagsbóta.

„Fleiri fyrirtæki komu inn á þennan markað og nýjar lausnir bættust við eins og hraðsendingar, „drop“-sendingar og þar fram eftir götunum, og okkur tókst að gera góða samninga sem skiluðu okkur lægri sendingarkostnaði.“

Undirfötin fá góðar viðtökur

Curvy rekur líka hefðbundna verslun í Fellsmúla 26 við Grensásveg og segir Hólmfríður að í dag fari um 70% af sölunni þar í gegn en 30% fari í gegnum vefverslunina. „Eftir að hafa byrjað með tvær fataslár stækkaði verslunin og fyllti á endanum heilan bílskúr þar sem við komum upp mátunarklefa. Haustið 2012 opnuðum við fyrstu eiginlegu búðina okkar í Nóatúni og strax varð mikil sprenging í viðskiptum. Tveimur árum síðar þurftum við að stækka við okkur og fluttum í Fákafen og aftur varð mikill kippur í sölu. Loks fluttum við í Fellsmúlann 2019, tvöfölduðum stærð búðarinnar og bættum við undirfatnaði og skóm, og voru viðtökurnar betri en nokkru sinni, svo við erum núna farnar að huga að því enn eina ferðina að stækka við okkur. Undirfatnaðurinn hefur fengið sérstaklega góðar viðtökur og langar okkur að gefa þeirri deild meira vægi í búðinni.“

Hólmfríður áætlar að helmingur íslenskra kvenna passi ekki í hefðbundnar …
Hólmfríður áætlar að helmingur íslenskra kvenna passi ekki í hefðbundnar evrópskar stærðir. Eggert Jóhannesson

Curvy, líkt og aðrar íslenskar netverslanir, naut góðs af því að í kórónuveirufaraldrinum varð mikill kippur í sölu á vörum yfir netið. Hólmfríður sá það fyrir að hegðun neytenda myndi breytast þegar faraldurinn væri genginn yfir og gætti hún þess að panta ekki eins mikið inn fyrir þennan vetur.

„Íslendingurinn er byrjaður að ferðast á ný og gera innkaupin erlendis, og finnum við fyrir samdrætti í sölu í haust miðað við sama tímabil í fyrra. Netverslunin hefur þó ekki gefið eins mikið eftir og ég hafði óttast, og svo virðist að faraldurinn hafi orðið til þess að margir hafi tileinkað sér að kaupa föt á netinu.“

Sérhæfingin hefur sína kosti

Samkeppnin er hörð en Hólmfríður segir gott vöruúrval og vandaða þjónustu veita Curvy samkeppnisforskot. Þá sé það kostur við að reka sérhæfða verslun að það er ekki endilega nauðsynlegt að leigja húsnæði á dýrasta stað. „Leigukostnaður er einn af stærstu kostnaðarliðunum en vegna sérstöðunnar getum við treyst því að viðskiptavinir komi til okkar og þess vegna þurfum við ekki að leigja á stöðum eins og Kringlunni eða Smáralind.“

Þá spáir Hólmfríður því að netverslun muni ekki gera út af við hefðbundinn verslunarrekstur. Ef eitthvað er ættu verslanir af gömlu sortinni að sækja á að hennar mati.

„Fólk vill geta þreifað á fatnaðinum, skoðað hann með eigin augum og síðast en ekki síst talað við manneskju sem veit sínu viti og getur veitt góða ráðgjöf. Fólk vill þessa persónulegu nálgun.“

mbl.is

Fleiri greinar og viðtöl

Samstarfsaðilar