Hrútskýrði fyrir þaulreyndri stjórnmálakonu

Varaforseti Alþjóðaólympíusambandsins, John Coates, þvertekur fyrir að hafa hrútskýrt fyrir kvenkyns stjórnmálakonu að hún skuli vera viðstödd opnunarathöfn Ólympíuleikanna í Tókýó, sem hefjast á morgun.

Á blaðamannafundi í dag tilkynnti Annastacia Palaszczuk, þaulreynd áströlsk stjórnmálakona, að hún ætlaði sér ekki að vera við opnunarathöfnina á morgun, vegna þess að höfuðborg kjördæmis hennar, Brisbane, var valin til þess að halda leikana árið 2032.

„Þú verður við athöfnina,“ sagði Coates við Palaszczuk, krosslagði hendur og hallaði sér aftur í stól sínum, eins og sjá má í myndbandi AFP-fréttastofunnar.

„Ég er enn þá stjórnarformaður ólympíunefndarinnar í Ástralíu og eins og ég skil það, verða bæði opnunar- og lokaathafnir árið 2032 og þar munuð þið öll mæta og láta ykkur það lynda. Þið munuð skilja það hefðargildi sem þessar athafnir hafa,“ bætti hann svo við, fyrir framan fjöldann allan af blaðamönnum og starfsmönnum leikanna.

Gerðu bæði lítið úr atvikinu

Palaszczuk var sjáanlega bylt við og þagði á meðan Coates flutti eldmessu sína yfir henni.

Þingmenn í Ástralíu hafa kallað eftir því að Coates biðjist afsökunar á athæfi sínu og jafnvel að hann segi af sér.

Coates hefur þó sagt að ummæli hans hafi verið tekin úr samhengi.

„Við höfum átt langt og gott starfssamband,“ segir Coates og bætir við að Palaszczuk hafi skilið inntak skilaboða sinna til hennar og að honum hafi ekki sýnst hún hafa móðgast.

Palaszczuk hefur vakið reiði margra Ástrala fyrir að hafa ferðast til Tókýó á meðan faraldurinn geisar í Ástralíu eins og aldrei fyrr, en hún gerði þó lítið úr atvikinu og segir að Coates sé „frábær“ og „driffjöður í því að tryggja Brisbane leikana árið 2032“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert