„Ég er stoltur af því hvernig við börðumst í dag,“

Kristófer Acox sækir að körfunni með Louis Labeyrie til varnar.
Kristófer Acox sækir að körfunni með Louis Labeyrie til varnar. Skúli B. Sigurðsson

Craig Pedersen, þjálfari íslenska landsliðsins í körfubolta, sagði á blaðamannafundi eftir leikinn gegn Frakklandi að hann væri stoltur af því hvernig liðið hefði barist og ekki væri annað hægt en að vera snortinn yfir stuðningi áhorfenda, sem sennilega hafa verið um 2.000, en hæfileikaríkt lið Frakka hefði á endanum náð yfirráðum á vellinum og sigrað. Lokatölur leiksins voru 115-79 fyrir Frakka.

Kristófer Acox, sem skoraði 10 stig og tók sjö fráköst í leiknum, reið á vaðið á fundinum. „Mér fannst við byrja sterkt, en aftur fór þriðji leikhlutinn með okkur,“ sagði hann. „Það er erfitt að vera 15 til 20 stigum undir þegar kemur í fjórða leiklhluta.“

„Ég er stoltur af hvernig við börðumst í dag,“ sagði Pedersen. „Ég var ánægður með fyrri hálfleik. Þar tókst okkur að skapa okkur góð tækifæri og  vorum ágengir í vörn og sókn.“ Hann sagði að í franska liðinu væru hins vegar gríðarlega hæfileikaríkir leikmenn og það skipt sköpum þegar leið á leikinn. „Þeir hittu úr 68% skota sinna utan af velli og það er erfitt að vinna þegar þeir hitta svona vel, spila svona vel og fá svona margar auðveldar körfur. Þeir eru með sérlega gott lið og ég er stoltur af því hvernig við börðumst  og héldum áfram að spila. Ég kann líka mjög vel að meta stuðningsmenn okkar, sem standa við bakið á okkur allt til loka leikja, jafnvel þótt við séum 35 stigum undir. Ég er snortinn og stoltur af að taka þátt í þessu.“

Í fyrri hálfleik börðust leikmenn íslenska liðsins eins og ljón og munaði aðeins sjö stigum á liðinu í lok annars leikhluta. Þótt Frakkar væru yfir stóð íslenska liðið sig betur á ýmsum sviðum, hafði meðal annars tekið mun fleiri fráköst en það franska.

„Ég talaði um það við aðstoðarmenn mína fyrir leikinn að þegar við höfum spilað gegn stórþjóðum körfuboltans á þessu ári, til dæmis Grikklandi, Rússlandi og Litháen – leikjum þar sem við vitum að ef við berjumst ekki frá upphafi gætum við tapað með 70 eða 80 stigum – bíta strákarnir okkar í skjaldarrendur og leggja sérstaklega hart a sér,“ sagði Pedersen. „Ég var að vona að myndi gerast í dag og það sýndi sig. Í leik okkar var orka og hugur og það var það sem við þurftum til að halda í við þá í fyrri hálfleik.“

Jón Arnór Stefánsson var í byrjunarliðinu í fyrsta skipti á mótinu og fann sig loks, skoraði 23 stig, tók sjö fráköst og gaf tvær stoðsendingar.

„Ég var með nokkra hluti í huga í sambandi við að láta hann byrja,“ sagði Pedersen. „Hann er enn að glíma við meiðsli og stundum þegar leikmaður er meiddur er betra fyrir hann að byrja strax eftir upphitun frekar en að setjast á bekkinn og kólna. Einnig hélt ég að þar með fengjum við aukinn slagkraft í sókninni í upphafi leiks. Það auðveldaði líka aðeins skiptinguna á stóru mönnum að Pavel kæmi inn af bekknum með Kristófer. Ég veit ekki hvort það var ástæðan, en í dag virtist það hafa jákvæð áhrif.“

Pedersen sagði að ekki stæði til að gera miklar breytingar fyrir næstu viðureign, sem verður gegn Slóvenum á þriðjudag. „Við erum að aftur fara að spila gegn mjög góðu liði,“ sagði hann. „Þeir eru með bakvörð, sem komst í stjörnuleikinn í NBA, mjög góða íþróttamenn og mjög góðan þjálfara. Enn er andstæðingurinn eitt af bestu liðum Evrópu og það verður erfitt. Við erum ef til vill með annan mælikvarða en önnur lið. Við þurfum að koma inn á völlinn og berjast og reyna að halda okkur inni í leiknum eins lengi og hægt er í þeirri von að í einhverjum þessara leikja eigum við möguleika á að vinna á lokasprettinum eins og gerðist nokkrum sinnum í Berlín.“

Kristófer sagði að sér hefði liðið vel í leiknum og ekki látið það hafa áhrif á sig að í röðum andstæðinganna eru stjörnur í hverri stöðu. Einu sinni í fyrri hálfleik stal hann boltanum, keyrði að körfunni þar sem Boris Diaw, sem leikið hefur í NBA í 14 ár og varð meistari með San Antonio 2014, og lagði boltann yfir hann í körfuna.

„Maður verður bara að fara út á völlinn og spila,“ sagði hann. „Það þýðir ekkert að velta því fyrir sér þótt þeir séu með ofurstjörnur úr NBA og hvað veit ég. Við spilum á sama velli og sama leik, þannig verður maður að hugsa.“

Craig Pedersen, þjálfari íslenska landsliðsins í körfubolta, hrósaði leik liðsins …
Craig Pedersen, þjálfari íslenska landsliðsins í körfubolta, hrósaði leik liðsins gegn hæfileikaríku liði Frakka. Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert