Þórir enn og aftur í úrslit eftir magnaðan leik

Þórir fagnar marki á hliðarlínunni í kvöld.
Þórir fagnar marki á hliðarlínunni í kvöld. AFP/Jonathan Nackstrand

Noregur, undir stjórn Þóris Hergeirssonar, tryggði sér í kvöld sæti í úrslitum heimsmeistaramóts kvenna í handbolta með 29:28-sigri á Danmörku í mögnuðum fyrri leik undanúrslitanna í Herning í Danmörku.

Réðust úrslitin í framlengdum leik og skoraði Henny Reistad sigurmarkið á síðustu sekúndunni. Reistad átti stórkostlegan leik og skoraði 15 mörk í 17 skotum.

Danir byrjuðu þó betur á heimavelli sínum og voru með forystuna stóran hluta venjulegs leiktíma. Var staðan í hálfleik 14:9 og Þórir og lið hans í vandræðum.

Það neitaði hins vegar að gefast upp og með góðum seinni hálfleik komst Noregur yfir í fyrsta skipti í stöðunni 23:22 undir lok venjulegs leiktíma. Kristina Jörgensen jafnaði þá í 23:23 og tryggði Dönum framlengingu.

Eftir jafna og æsispennandi framlengingu var það að lokum norska liðið sem vann og tryggði sér sæti í enn einum úrslitaleiknum. Þar mætir liðið annað hvort Svíþjóð eða Frakklandi sem mætast klukkan 20.

Áðurnefnd Reistad var markahæst með mörkin sín 15 og Stine Oftedal bætti við fimm. Kristina Jörgensen skoraði sjö fyrir Danmörk og Anne Mette Hansen gerði fimm. 

Sigurmarkið má sjá hér fyrir neðan. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert