Var æðisleg stund

Sandra tekur við bikarnum með Sunnu Jónsdóttur og Þóreyju Rósu …
Sandra tekur við bikarnum með Sunnu Jónsdóttur og Þóreyju Rósu Stefánsdóttur í kvöld. Ljósmynd/HSÍ

„Þetta var hörkuleikur, erfiður og krefjandi en það er frábært að við náðum að klára þetta í lokin,“ sagði Sandra Erlingsdóttir, leikmaður íslenska landsliðsins í handbolta, eftir að liðið tryggði sér Forsetabikarinn á HM með 30:28-sigri á Kongó í úrslitaleik í Frederikshavn í kvöld.

Var leikurinn jafn og spennandi allan tímann, en íslenska liðið var ögn sterkara í blálokin og tryggði sér sigurinn.

„Ég hugsaði alltaf að þetta kæmi, en svo var þetta ekki alveg að koma. Þá varð maður aðeins stressaður en við náðum þessu í lokin. Við sýndum karakter þar,“ sagði hún.

Sandra Erlingsdóttir
Sandra Erlingsdóttir Ljósmynd/Jon Forberg

Með sigri í Forsetabikarnum tryggði Ísland sér 25. sæti mótsins. Íslenska liðið ætlaði sér í milliriðil, en þó fagnað bikar þegar uppi var staðið.

„Þetta er fyrsta stórmótið núna í langan tíma. Auðvitað hefðum við viljað vera í milliriðlinum, en einhvers staðar verður maður að byrja og núna er bara að halda áfram og taka næstu skref.

„Þetta er í fyrsta skipti sem ég lyfti bikar með landsliðinu og það var æðisleg stund. Ég er með vinkonu frá Álaborg og þetta var geggjað,“ sagði Sandra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert