Langar heim en á eftir að sakna allra strax

Sunna tekur við bikarnum í leikslok ásamt Þóreyju Rósu Stefánsdóttur …
Sunna tekur við bikarnum í leikslok ásamt Þóreyju Rósu Stefánsdóttur og Söndru Erlingsdóttur. Ljósmynd/HSÍ

„Þetta var ótrúlegt og magnað,“ sagði sigurreif Sunna Jónsdóttir, fyrirliði íslenska landsliðsins í handbolta eftir 30:28-sigur á Kongó í úrslitaleik Forsetabikarsins á HM í Frederikshavn í Danmörku í kvöld.

„Það er alltaf gaman að vinna bikar og úr því sem komið var í þessu móti var geggjað að lyfta bikar,“ sagði Sunna. Ísland rétt missti af sæti í milliriðli á HM en fékk góða sárabót þegar bikarinn fór á loft í kvöld eftir mikinn spennuleik.

„Við þurftum að hafa fyrir þessu. Kongó er fínt lið og spilar aðeins öðruvísi en við erum vanar. Við vorum að spila tíunda leikinn á 20 dögum og það var smá þreyta. Við sýndum hins vegar gríðarlegan karakter að vinna þetta og ég er stolt af liðinu,“ sagði fyrirliðinn og hélt áfram:

Sunna Jónsdóttir var sátt í leikslok.
Sunna Jónsdóttir var sátt í leikslok. AFP/Claus Larsen

„Mér líður vel. Þetta er búið að vera ótrúlegur tími og það hefur gengið rosalega vel, þrátt fyrir að þetta sé langur tími. Þetta er ótrúlega flottur hópur og manni langar heim, en ég mun pottþétt strax byrja að sakna allra,“ sagði hún.

Ástin á sér stað, Þjóðhátíðarlagið árið 2016, var spilað í leikslok. Sunna hefur síðustu ár verið búsett í Vestmannaeyjum og spilað með ÍBV. Hún á ekki von á að geta knúsað eiginmann og son alveg strax.

„Ég er algjör Eyjakona og fékk smá heimþrá, en það var bara skemmtilegt. Ef þú ert í einhverju sambandi við veðurguðina kemst ég fyrr heim.

Herjólfur siglir víst ekki fyrr en á laugardaginn, en nú eru það jólin og peyinn bíður. Ég hlakka mikið til,“ sagði Sunna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert