Erum klassa fyrir ofan þá

Ómar Ingi Magnússon lék gríðarlega vel í kvöld.
Ómar Ingi Magnússon lék gríðarlega vel í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það er geggjað að spila í Höllinni, sérstaklega þegar hún er full,“ sagði Ómar Ingi Magnússon í samtali við mbl.is í kvöld.

Ómar var markahæstur í íslenska landsliðinu í handbolta í 25 marka sigri á Eistlandi í kvöld, 50:25, í umspili um sæti á lokamóti HM í upphafi næsta árs.

„Við vildum aðeins finna hvernig þeir voru í upphafi leiks en heilt yfir var þetta mjög flott. Maður fann þetta frá fyrstu mínútu og þetta var ekki mikið vesen. Við erum klassa fyrir ofan þá.“

Ómar skoraði 13 mörk í leiknum og fór á kostum um miðbik fyrri hálfleiks þegar hann skoraði hvert markið á fætur öðru.

„Við vildum byrja vel, það skiptir engu hverjir skora. Svo spiluðum við heilt yfir góðan leik allan tímann. Þegar það var svona kortér eftir töluðum við um í leikhléi að við ætluðum að ná 50 og það var gott.“

Ísland á enn eftir að spila seinni leikinn ytra á laugardag en ljóst er að íslenska liðið spilar á HM á næsta ári. „Þetta lítur vel út og við viljum nýta tímann vel sem við höfum saman. Það er ekki allt of oft sem við hittumst.“

Ómar leikur sjálfur afar þétt með félagsliði sínu Magdeburg og er óvíst hve mikið hann spilar í seinni leiknum, í unnu einvígi.

„Ég á eftir að ræða það við þjálfarateymið og svo verðum við að sjá hvernig skrokkurinn er á morgun. Ég fékk svo hælsæri sem ég vildi ekki þjösnast á og því fór ég af velli,“ sagði Ómar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert