Hefði viljað fá framlengingu.

Óskar Bjarni á Varmá í kvöld
Óskar Bjarni á Varmá í kvöld mbl.is/Eyþór

Óskar Bjarni Óskarsson, þjálfari Vals, var svekktur yfir tapinu gegn Aftureldingu í undanúrslitum Íslandsmótsins í handbolta á Varmá í dag. Leiknum lauk 26:25 fyrir heimamenn.

„Mér fannst þeir vera með frumkvæðið mestallan tímann, við misstum þá aðeins of langt frá okkur en síðustu tíu voru góðar og við gerðum leik úr þessu. Ég hefði bara viljað fá þetta í framlengingu. Svona er úrslitakeppnin bara, við klúðrum dauðafærum í dag og þeir í síðasta leik“.

Afturelding var með forskot mestallan leikinn en á síðustu mínútum leiksins fengu Valsmenn tækifæri til að minnka muninn í eitt mark og gera þetta enn meira spennandi.

Hart barist í kvöld
Hart barist í kvöld mbl.is/Eyþór

„Við erum með hraðaupphlaup, hornafæri og víti sem við klikkum á í lokin þar sem við hefðum getað minnkað í eitt mark og gert þetta enn meira spennandi. Heilt yfir fórum við þetta á seiglunni og karakter, við vorum ekki frábærir hvorki í vörn né sókn, en það var bara neistinn í liðinu sem hleypti spennu í þetta í blálokin“.

Var erfitt að stilla liðið af eftir stórsigur í síðasta leik eða hefði nálgunin geta verið öðruvísi í þessum leik?

„Það er kannski ekki þannig í úrslitakeppni, við hefðum kannski átt að poppa þetta upp aðeins og gera eitthvað nýtt frá síðasta leik því hinir verða alltaf betri en síðast. Þetta er alltaf smá refskák en mér fannst ekkert erfitt að gíra liðið og hef ekki yfir neinu að kvarta frá mínum mönnum nema tapinu“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert