Krakkarnir að einangrast og kerfið að klikka

Aron Ólafsson framkvæmdarstjóri RÍSÍ og Tommy Ingemarsson einn af stofnendum …
Aron Ólafsson framkvæmdarstjóri RÍSÍ og Tommy Ingemarsson einn af stofnendum Ninjas in Pyjamas. Aðsend mynd

Aron Ólafsson framkvæmdastjóri RÍSÍ hefur óskað eftir því að láta af störfum en hann hefur starfað sem framkvæmdastjóri síðan árið 2019. Aron segir í viðtali við mbl.is að nú sé tími til kominn að breyta um vettvang og tímabært að nýr framkvæmdastjóri komi inn í RÍSÍ með nýjar hugmyndir, þrátt fyrir að ekki sé skortur á verkefnum og hugmyndum.

Hann gengur stoltur frá starfinu og er ánægður með framfarir rafíþrótta undanfarin ár. „Núna veit fólk hvað rafíþróttir eru, það var ekki þannig þegar ég byrjaði! Fólk hélt ég væri að vinna hjá Rafiðnaðarsambandinu eða rafvirki“. 

Sagan skiptist upp í nokkra kafla

„Í mínum huga þá skiptist rafíþróttasaga Íslands upp í nokkra kafla. Í kringum aldarmótin var LAN-stemning, rafíþróttamót þar sem Skjálfti fyllti Digranesið fjórum sinnum á ári þar sem 6-700 manns mættu og spiluðu tölvuleiki saman, en á milli þessara móta var lítið að gerast og samskipti við foreldra og iðkun meðal barna engin.

Næsti fasi kemur svo löngu seinna þegar fyrirtækið Tuddinn var með netkeppnir og hélt keppnir einu sinni á ári og þá kom svolítið skipulag, en kaflinn sem er í gangi núna hefst svolítið eftir komu Tuddans“.

Rafíþróttasamtök Íslands var stofnað árið 2018 og var markmiðið að vekja athygli á og styðja þróun rafíþrótta á Íslandi. Samtökin hafa síðan þá unnið að uppbyggingu rafíþróttastarfs fyrir börn og byggja upp innviði fyrir rafíþróttir og þær keppnisgreinar sem tölvuleikjunum tengjast. 

„Það voru teknir einskonar áhrifavaldar innan rafíþróttasamfélagsins og stofnað Rafíþróttasamband Íslands og það er þar sem foreldrar og almenningur loksins kynnast rafíþróttum og þess mynd sem er svo sjálfsögð í dag verður ekki til fyrr en þá.

Aron Ólafsson, fráfarandi framkvæmdastjóri Rafíþróttasamtaka Íslands, RÍSÍ.
Aron Ólafsson, fráfarandi framkvæmdastjóri Rafíþróttasamtaka Íslands, RÍSÍ. Ljósmynd/Rafíþróttasamtök Íslands

Blóð, sviti og tár

Hugmyndafræðin var að búa til umhverfi sem líkist hefðbundnum íþróttum, tekur margt úr þeim en samt vekja athygli á því hvað rafíþróttir eru öðruvísi og sá hópur sem stundar þær. Þetta hefur verið gríðarlegur vöxtur síðan ég tók við, fullt af störfum sem hafa orðið til og fjárhagur félagsins stóraukist“. segir Aron.

Aron tók við sem framkvæmdastjóri árið 2019 og fyrsta árið starfaði hann í fullu starfi sem sjálfboðaliði en varð á endanum fyrsti launaði starfsmaður RÍSÍ.

„Þessi blóð, sviti og tár sem maður hefur lagt í þetta, allar andvökunæturnar og löngu vinnudagarnir hefur skilað sér, en maður er langt frá því að vera saddur, ég var ekki að hugsa mér til hreyfingar strax en svo kom bara boð sem vakti áhuga minn mikið og spennandi verkefni“.

Síðustu ár í einu orði

Aðspurður hvernig síðustu ár hafa gengið segir Aron að einungis eitt orð komi í hugann.

„Orðið sem kemur í hugann þegar ég hugsa um síðustu ár er orðið valdeflandi. Það að rafíþróttir séu ekki tabú lengur, þvílíkur munur að ég geti sagt hvar sem er að ég spili tölvuleiki og fólk er áhugasamt um það.

Þetta hefur verið valdeflandi tími bæði fyrir mig og líka fyrir krakka og ungmenni sem stunda rafíþróttir. Iðkendur í rafíþróttum eru á allt öðrum stað í dag en nokkurn tímann áður í sögu á Íslandi. Þú ert ekki lúði fyrir það að spila tölvuleiki lengur. Iðkendur eru markvisst að æfa sig og bæta sig á æfingum og það er líka valdeflandi“.

Krakkarnir ánægðir

Aron er stoltur af því verki sem hefur verið unnið á síðustu árum en hann á sín uppáhalds augnablik. Það sem var honum virkilega minnisstætt voru Framhaldsskólaleikarnir árið 2022.

„Þegar við vorum að krýna sigurvegara í Framhaldsskólaleikunum í fyrsta skipti í beinni útsendingu, þá horfi ég á krakkana sem lenda í öðru sæti og þau voru skælbrosandi. Ég labba til þeirra og spyr þau hvernig þeim líði og hrósa þeim og þau segja: Aron, ertu að sjá alla krakkana úr skólanum sem komu að styðja við okkur, þau eru ennþá að klappa þrátt fyrir að við töpuðum úrslitaleiknum.

Framhaldsskólaleikarnir standa upp úr tilfinningalega séð. Oft eru þetta krakkar sem voru ekki að stefna að því að ná þessu rokkstjörnu augnabliki í sínum skólum og þarna fá þau vettvang til þess að vera stolt og standa sig vel. Þetta er viðburður sem ég hugsa oft til baka til og þetta hefur skilið mest eftir sig“.

Hann hefur verið lykilmaður í uppbyggingu starfsins hér á Íslandi og hefur Ísland unnið náið með öðrum rafíþróttasamtökum víðsvegar um heim undanfarin misseri.

„Því næst á eftir kemur þegar við fórum á Heimsmeistaramótið í Rúmeníu og sjá íslenska fánanum flaggað á kastala á opnunarhátíðinni var rosalegt augnablik líka. Þessi tvö augnablik voru tilfinningalega séð þau bestu. 

Svo er ég auðvitað bara stoltur af Counter-Strike keppnisdeildinni okkar sem er líklega orðið næstvinsælasta íþróttaefnið á Íslandi. Það finnst mér magnað. Ég er líka stoltur af öllu fólkinu sem maður hefur fengið að vinna með og reyna að búa til samheldið samfélag og eyða út neikvæðninni, en lengi má gott bæta samt“.

Aron Ólafsson, fráfarandi framkvæmdarstjóri Rafíþróttasamtaka Íslands.
Aron Ólafsson, fráfarandi framkvæmdarstjóri Rafíþróttasamtaka Íslands. Ljósmynd/Håkon Broder Lund

Ástríðan fyrst

„Þetta er verkefni sem er lífsstíll, þetta er ekki starf heldur lífsstíll. Sá sem tekur við þarf að keyra þetta áfram af ástríðu. Ástríðu fyrir því að gefa krökkum tækifæri til þess að vaxa og sigra, ekki bara fá gullmedalíu á móti heldur sigra og ná sínum markmiðum, og hafa gaman. 

Ég gleymi því aldrei þegar við erum að fara út og halda fyrirlestur um íslenska módelið, eins og það sé einhver vara. Í okkar huga var þetta engin vara heldur bara það sem átti að gera. Setja þetta upp eins og íþróttir og setja börnin í fyrsta sæti, þetta var ekki flókið fyrir okkur“.

Íslenska módelið

„Við fórum tveir erlendis á ráðstefnu og töluðum fyrir hópi framkvæmdastjóra stærstu rafíþróttaliða Evrópu, þetta er kannski sambærilegt því að flytja erindi um fótbolta við framkvæmdastjóra Liverpool.

Svo kemur í ljós að því meira sem við töluðum við þessa aðila því meira sjálfstraust fengum við, enginn var að hugsa eins og við vorum að gera og við komum við lausnir við vandamálum hjá mörgum. Krakkar voru að einangrast svolítið við að spila rafíþróttir, einmanaleiki er orðið vandamál, sem er klikkað því við höfum aldrei verið jafn tengd í stafrænum heimi. Þarna er kerfið að klikka og þarna er tækifæri fyrir okkur að búa til stað fyrir krakka til þess að hittast og sinna sínum áhugamálum saman“.

Rafíþróttasamtökin auglýsa nú eftir nýjum framkvæmdastjóra en Aron mun starfa áfram náið með stjórn samtakanna þangað til nýr framkvæmdastjóri hefur verið ráðinn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert