Eyjamenn enn stigalausir

Counter-Strike: Global Offensive.
Counter-Strike: Global Offensive. Grafík/Valve

Fjórðu umferð í íslensku úrvalsdeildinni í Counter-Strike lauk með sigri rafíþróttaliðsins TEN5ION á ÍBV, en Eyjamenn hafa enn ekki unnið leik í deildinni og sitja í síðasta sæti deildarinnar. TEN5ION vann 16:7 og fór með sigrinum upp í þriðja sæti deildarinnar, með jafn mörg stig og Ármann sem er í öðru sæti. 

Ármann vann sinn leik í æsispennandi viðureign gegn SAGA Esports en lokatölur voru 16:14 fyrir Ármanni. Ármann er því með þrjá sigra eftir fjórar umferðir og tveimur stigum á eftir NOCCO Dusty, sem er í fyrsta sætinu. 

Þór og FH mættust einnig í fjórðu umferðinni og þurftu FH-ingar að sætta sig við 10 lotu tap gegn Þórsurum en lokatölur voru 16:6. Þór er eftir sigurinn í fjórða sæti deildarinnar en FH í því sjötta.

Í kvöld hefst fimmta umferðin í deildinni með tveimur leikjum. Topplið NOCCO Dusty mætir FH í fyrri leik kvöldsins en FH getur með sigrinum komist upp í annað sæti deildarinnar, þó eiga hin liðin leik til góða. Leikmenn Dusty reyna að halda áfram hinni fullkomnu byrjun á tímabilinu en liðið er ósigrað. 

Í seinni viðureign kvöldsins mætast Ármann og ÍA en bæði lið hafa verið funheit í byrjun tímabilsins. ÍA er í fimmta sæti með tvo sigra og tvö töp en Ármann í öðru sætinu með þrjá sigra og eitt tap.

Fyrsti leikurinn hefst klukkan 19.30 og sá seinni klukkan 20.30.

Stigatöfluna má sjá hér að neðan.

Skjáskot/FRAG.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert