Æsispennandi umferð og frækinn sigur FH

Counter-Strike: Global Offensive.
Counter-Strike: Global Offensive. Grafík/Valve

Þrír leikir fóru fram í íslensku úrvalsdeildinni í Counter-Strike í gær þegar Dusty mætti Breiðablik, ÍBV mætti ÍA og FH mætti SAGA Esports.

Fyrsti leikur kvöldsins var viðureign Dusty og Breiðablik en þar fyrrnefnda eru ríkjandi deildarmeistarar í úrvalsdeildinni. Breiðablik tefldi fram sterku liði gegn meisturunum og byrjuðu leikinn vel.

Þegar fyrri hálfleikurinn var hálfnaður tóku Dusty-menn þó við sér og náðu að hala inn lotum og urðu hálfleikstölur 10:5 fyrir Dusty sem þurfti því einungis að vinna sex umferðir í seinni hálfleiknum.

Seinni hálfleikurinn byrjaði illa fyrir Breiðablik sem tapaði fyrstu lotunni en eftir það náðu þeir að svara Dusty og náðu þremur lotum í röð. Að lokum bar Dusty sigur úr býtum og lokatölur 16:11 fyrir Dusty.

ÍBV gegn ÍA

Seinni leikur kvöldsins var ÍBV gegn ÍA. Leikurinn var frekar jafn fyrstu loturnar en eftir það tóku leikmenn ÍA völdin og staðan í hálfleik 12:3 fyrir ÍA. ÍBV-menn komust vart inn í leikinn og endaði leikurinn 16:6 fyrir ÍA þar sem leikmaðurinn Midgard fór mikinn með 23 fellur í leiknum. 

FH gegn SAGA Esports

Þriðji og síðasti leikur var viðureign FH og SAGA Esports. FH byrjaði leikinn af krafti og tóku fyrstu fjórar loturnar en eftir þær komust leikmenn SAGA á strik og jöfnuðu leikinn í 4:4. Fyrri hálfleikurinn var gríðarlega jafn en leikmenn SAGA náðu hinsvegar að safna fleiri lotum og staðan í hálfleik 10:5 fyrir SAGA Esports.

FH-menn byrjuðu seinni hálfleikinn eins og þeir byrjuðu þann fyrri og náðu fjórum lotum í röð og jöfnuðu svo leikinn í stöðunni 11:11. FH-ingar kláruðu svo leikinn eftir frábæra frammistöðu í seinni hálfleiknum og lokatölur 16:12 fyrir FH.

Næsta umferð fer fram þriðjudaginn 19. september þegar ÍA mætir SAGA klukkan 19.30 og ÍBV mætir Dusty klukkan 20.30.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert