Barist um flug og ferð til Danmerkur um helgina

Eva Margrét Guðnadóttir, framkvæmdastjóri Arena og formaður RÍSÍ, fyrir framan …
Eva Margrét Guðnadóttir, framkvæmdastjóri Arena og formaður RÍSÍ, fyrir framan rafíþróttahöllina Arena í Kópavogi. mbl.is/Hákon Pálsson

Nú fer hver að verða síðastur til þess að skrá sig með sínum allra besta vængmanni til leiks í vængmannamótið, þar sem fyrstu verðlaun eru flug og ferðalag til Danmerkur.

Vængmannamótið í Counter-Strike: Global Offensive fer fram um helgina og gefa Rafíþróttasamtök Íslands, Arena og Red Bull sigurvegurum ferðapakka til Danmerkur á úrslit Blast-mótaraðarinnar í nóvember.

Keppt á óhefðbundinn hátt

Mótið hefst á laugardaginn og fer fram í rafíþróttahöllinni Arena, en það stendur yfir fram á sunnudag, þegar úrslitin verða spiluð.

„Okkur langaði að halda eitt risastórt Counter-Strike-mót, með alvöru verðlaunum. En við ákváðum að hafa það í aðeins óhefðbundnari útgáfu,“ segir Eva Margrét, formaður RÍSÍ og framkvæmdastjóri Arena, í samtali við mbl.is.

Hún útskýrir þá að vanalega sé keppt í fimm manna-liðum í Counter-Strike og er vængmannamótið því frekar óhefðbundið þar sem tveir keppa saman á móti tveimur.

„Wingman er líka ákveðin áskorun fyrir marga þaulreynda CS-spilara, leikurinn spilast öðruvísi þegar þú hefur bara einn liðsfélaga, í stað fjögurra, og kortin eru minni,“ segir Eva.

„Þannig eiga fleiri séns á að sigra og leikvöllurinn verður „jafnari“.“

Íslendingaferð í kortunum

Vegna þessa hvetur Eva alla til þess að taka þátt, óháð eigin áliti á getu innan leiks. Enda eru vegleg verðlaun í boði fyrir fyrsta sætið. Sigurvegarar fá pakkaferð til Kaupmannahafnar á úrslit hauststímabils Blast-mótaraðarinnar í nóvember.

Rafíþróttasamtök Íslands eru að skipuleggja Íslendingaferð á úrslitin í Kaupmannahöfn og eru vonir bundnar við að sem flestir Íslendingar sláist í för með þeim.

„Þetta snýst um að spila saman, og það getur allt gerst í vængmanna-móti!“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert