Skráning á næsta mót hafin en samkeppnin harðari

Super Smash Bros Ultimate.
Super Smash Bros Ultimate. Grafík/Nintendo

Íslenska mótaröðin í bardagaleiknum Super Smash Bros, Zoner's Paradise, heldur áfram í Kópavogi næstkomandi sunnudag.

Þá mætast tölvuleikjaspilarar í rafíþróttahöllinni Arena til þess að etja kappi hvor við annan í leiknum, en ungur leikmaður hefur skapað sér nafn og ryðja sér til rúms innan senunnar.

Zoner's Paradise er íslenska mótaröðin í Super Smash Bros.
Zoner's Paradise er íslenska mótaröðin í Super Smash Bros. Grafík/Zoner's Paradise

Herðir samkeppnina

Leikmaðurinn Maplegold er á hraðri uppleið þar sem hann hefur tekið gríðarlegum framförum á skömmum tíma, en hann er aðeins um fimmtán ára gamall.

Með þessu áframhaldi verður hann ekki lengi að komast á toppinn, enda hefur samkeppnin innan samfélagsins harðnað til muna eftir að hann fór að láta til sín taka.

Í samtali við mbl.is segir Erlingur Atli „AirLi“, mótastjóri Zoner's Paradise, að hér sé um efnilegan leikmann að ræða, sem gæti jafnvel skapað sér nafn erlendis og náð árangri í stóru senunni þar.

Ljóst er að íslenska senan í Super Smash Bros er að taka einhverjum breytingum en næsta mót fer fram í rafíþróttahöllinni Arena næsta sunnudag.

Ungmenni fá afslátt

Líkt og áður fá ungmenni sem ekki hafa náð sextán ára aldri afslátt af þátttökugjaldi, og greiða aðeins þúsund krónur en þeir eldri greiða 1.900 krónur.

Mótið hefst klukkan 13:00 en gott er að mæta fyrr til þess að koma sér fyrir og kynnast öðrum leikmönnum í samfélaginu. Í tilkynningu eru byrjendur jafnt sem lengra komnir hvattir til þess að mæta og jafnvel taka þátt.

Skráningu sem nánari upplýsingar má finna með því að fylgja þessum hlekk en á Facebook má einnig finna umræðuhóp fyrir samfélagið á Íslandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert