„Ákvað að prófa bara“

Alda Ósk Valgeirsdóttir, einnig þekkt sem ActuallyAlda.
Alda Ósk Valgeirsdóttir, einnig þekkt sem ActuallyAlda. Ljósmynd/Aðsend

Alda Ósk Valgeirsdóttir, einnig þekkt sem ActuallyAlda, er 26 ára gamall rafíþróttamaður en hún keppir í tölvuleiknum Overwatch með Þorbirni í Grindavík.

„Ég reyni að spila eitthvað smá á hverjum degi, horfi líka mikið á Twitch og YouTube á spilara sem eru í hæsta gæðaflokki og reyni að læra af þeim,“ segir Alda í samtali við mbl.is.

Segir hún Overwatch eflaust vera hennar uppáhalds tölvuleik en bætir við að henni finnist margir aðrir leikir skemmtilegir. Auk þess hefur hún kynnst mikið af skemmtilegu fólki í gegnum leikinn sem hún spilar og telur jafnframt suma þeirra vera sína bestu vini.

Spilar ennþá tuttugu árum seinna

Fyrsti leikurinn sem hún man eftir að hafa spilað er Super Mario World á GameBoy Advance en þá var hún ekki nema um sex ára gömul. Tuttugu árum seinna er hún enn að spila tölvuleiki en hún byrjaði að stunda rafíþróttir um haustið árið 2020, þegar hún sá auglýsingu á Discord-rás Overwatch samfélagsins á Íslandi.

Í henni kom fram að stofnun íslenskrar deildar í tölvuleiknum væri í bígerð og gátu áhugasamir haft samband og tekið þátt.

Tók á skarið

„Þar var bæði hægt að skrá sig sem lið eða einstakling. Þar sem ég þekkti engan í íslenska Overwatch samfélaginu á þeim tíma, ákvað ég að skrá mig sem einstakling - þrátt fyrir mikla feimni og að vera hrædd um að ég væri of léleg til að taka þátt,“ segir Alda.

„Ég lenti með æðislegu fólki í liði og fannst æðislegt að æfa og keppa. Liðið hætti en ég fann nýtt lið og hef alltaf verið mjög heppin með liðsfélaga.“

Vinkonurnar skiptust á

Á hún margar góðar minningar tengdar tölvuleikjum að baki. Má nefna þegar hún var á leikskólaaldri og fékk að prófa bílaleik sem pabbi hennar átti. Hún spilaði líka mikið á fyrstu PlayStation tölvuna með nokkrum frændum sínum og eins tölvuleikinn Sims með vinkonum sínum.

„Ég og bestu vinkonur mínar í grunnskóla spiluðum allar Sims og oft var búin til sitthvor fjölskyldan og skiptumst við á að spila sólarhring í leiknum, og skiptum svo aftur.“

Eignast vini í gegnum tölvuleiki

Tölvuleikir hafa alltaf verið stór partur í lífi Öldu og hefur hún kynnst mörgum vinum sínum í gegnum þá, bæði hér á Íslandi sem og erlendis.

„Ég var búin að vera vinafá mjög lengi og tölvuleikir hafa verið gott tól til þess að kynnast nýju og skemmtilegu fólki sem ég er nánast í daglegum samskiptum við í dag,“ segir Alda og nefnir að hún væri til í að sjá fleiri ungar stelpur stunda rafíþróttir.

Mikilvægt að hafa gaman

Hennar aðalmarkmið í faginu er að bæta sig og halda áfram að spila eins lengi og hún getur. Auk þess hefur hún það alltaf að markmiðið að hafa gaman og njóta þess að spila því að henni þykir það vera mikilvægur þáttur í þessu.

Alda streymir reglulega frá sér að spila á Twitch-rásinni actuallyalda. Hún er ekki með neina fasta tíma en reynir að streyma um tvisvar til þrisvar sinnum í viku.

Finnur frelsi í streymunum

„Ég ákvað að byrja að streyma um mitt árið 2020 þegar ég var nýbúin að fá nýja og flotta borðtölvu í staðinn fyrir fartölvu,“ segir Alda sem hafði lengi langað til þess að byrja en var alltaf „of hrædd“ við að byrja þar sem hún er feimin að eðlisfari.

Fékk hún lánað hugrekki þegar hún heyrði einn af hennar uppáhalds streymurum tala um að hann væri sjálfur mjög feimin í sínu daglega lífi en henni hafði aldrei dottið það í hug.

„Eftir að ég heyrði þetta ákvað ég að prófa bara, fyrstu skiptin voru lang erfiðust en hvert skipti varð auðveldara og auðveldara.“

Að streyma hefur fært Öldu mikla gleði og nýtur hún þess að tala við fólkið sem kíkir við og segir hæ.

„Ég lifi mig mikið inn í það og finnst mér það gefa mér frelsi í að vera ég sjálf og koma út úr skelinni minni, án þess að vera hrædd við að vera dæmd fyrir að vera ég sjálf.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert