Stundar rafíþróttir kasólétt

Guðríður Harpa er einnig þekkt sem Gurrý, Gella eða Wifey.
Guðríður Harpa er einnig þekkt sem Gurrý, Gella eða Wifey. Ljósmynd/Aðsend

Guðríður Harpa Elmarsdóttir, kölluð Gurrý en gengst undir rafheitinu Gella eða Wifey, er tvítugur Overwatch og Valorant leikmaður.

Það er mikið um að vera hjá Gurrý um þessar mundir þar sem hún gengur með sitt fyrsta barn og komin tæpa níu mánuði á leið en þrátt fyrir það hefur henni tekist að gefa sér tíma til þess að stunda rafíþróttir. 

Keppir í tveimur leikjum

Hún hefur verið að æfa og keppa í bæði Valorant og Overwatch, í Valorant spilar hún með Kröflu en í Overwatch spilar hún með Silfri Mosfellsbæjar. Silfur Mosfellsbæjar tekur þátt í Almenna Bikarnum og mun hún spila með fram að fæðingu barnsins, sem hún er mjög spennt fyrir.

Gurrý æfir með Silfri Mosfellsbæjar þrisvar til fjórum sinnum í viku en hún hefur það að markmiði að spila eitthvað á hverjum degi.

Ég er að spá í að taka smá pásu á meðan ég venst móðurlífinu en ég er alveg 100% viss að ég kem aftur í framtíðinni. Þetta er eitthvað sem ég á eftir að gera að eilífu,“ segir Gurrý í samtali við mbl.is.

Spilaði mikið sem barn

Eftir að hafa spilað mikið af Overwatch telur hún hann vera einn af sínum uppáhalds leikjum en hún segir jafnframt að ekkert topppi það að „chilla í sófanum með Nintendo DS að spila Pokémon Diamond“.

Þegar hún var barn spilaði hún mikið af tölvuleikjum með föður sínum og minnist sérstaklega á Duck Hunt og alla Lego leikina en hún spilaði mikið af Lego Batman og Lego The Hobbit.

Man hún sérstaklega eftir því þegar hún stundaði það að vakna snemma í sumarfríinu sínu sem barn til þess að hitta vini sína og spila tölvuleikinn Minecraft.

Tók á skarið

„Nokkrir vinir mínir hafa verið í mörgum rafíþróttaliðum og þegar ég sá að Almenni Bikarinn í Overwatch var að byrja þá skráði ég mig sem einstaklingur og lenti í fyrsta liðinu mínu, Útlagar Skagafjarðar,“ segir Gurrý.

Hún segist ekki hafa nein sérstök markmið fyrir brjósti sér en henni langar til þes að verða góð í leiknum. Gurrý hefur alltaf spilað til þess að skemmta sér og til þess að eyða tíma með sínum vinum.

Hún hefur einnig eignast margar vinkonur í gegnum tölvuleiki og segir það frábært hversu margar stelpur eru að láta sjá sig í rafíþróttum. Gurrý bætir við að margar hverjar af hennar vinkonum sem ekki spiluðu tölvuleiki áður séu nú byrjaðar að spila.

„Ég er búin að eignast bestu vini mína, sem ég tala við á hverjum degi, í gegnum rafíþróttir,“ segir Gurrý.

„Ég mæli alltaf með að fara í rafíþróttir því þetta er eitt af því besta sem hefur komið fyrir mig, þetta samfélag er svo æðislegt!“

Vilt þú vera leikmaður vikunnar? Sendu okkur skeyti á vidja@mbl.is !

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert