Haaland magnaður í stórsigri City

Erling Haaland skoraði sína fyrstu fernu í ensku úrvalsdeildinni
Erling Haaland skoraði sína fyrstu fernu í ensku úrvalsdeildinni AFP/Darren Staples

Manchester City tók á móti Wolves á Etihad vellinum í Manchester í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag. Manchester liðið þurfti nauðsynlega á sigri að halda til að halda í við Arsenal í baráttunni um Englandsmeistaratitilinn.

Fyrri hálfleikur var eign þeirra bláklæddu frá upphafi til enda. City pressaði hátt og Úlfarnir áttu í stökustu vandræðum að koma boltanum fram völlinn. Erling Haaland kom City yfir úr vítaspyrnu á 12. mínútu eftir að Josko Gvardiol var felldur af Rayan Ait Nouri.

Norðmaðurinn tvöfaldaði forskot heimaliðsins með glæsilegum skalla eftir fyrirgjöf Rodri. Haaland var svo sjálfur felldur af Nélson Semedo innan vítateigs og innsiglaði þrennuna í uppbótartíma fyrri hálfleiks. 3:0 fyrir heimamenn.

Erling Haaland fagnar ásamt liðsfélögum sínum.
Erling Haaland fagnar ásamt liðsfélögum sínum. AFP/Darren Staples

Síðari hálfleikur byrjaði fjörlega því Úlfarnir minnkuðu muninn á 53. mínútu eftir herfileg mistök Ederson, Brasilíumaðurinn misreiknaði fyrirgjöf og sló boltann aftur fyrir sig þar sem Hee-Chang Hwan beið og afgreiddi boltann örugglega í markið.

Sú gleði Úlfanna var þó skammvinn því Phil Foden gaf góða stungusendingu á Haaland sem þrumaði boltanum í fjærhornið einungis mínútu eftir mark Úlfanna og kom City aftur í þriggja marka forystu, 4:1.

Haaland var skipt af velli fyrir Julian Alvarez þegar tíu mínútur voru eftir af leiknum og virtist afar ósáttur við þá ákvörðun Guardiola. Alvarez hins vegar skoraði fimmta mark City stuttu síðar eftir frábæra pressu City og stoðsendingu Rodri. Þar við sat og lokatölur 5:1 á Etihad.

Manchester City andar enn í hálsmálið á toppliði Arsenal, eru stigi á eftir Skyttunum og eiga leik til góða. Wolves situr sem fastast í 11. sæti deildarinnar.

Pep Guardiola ræðir við Matheus Nunes
Pep Guardiola ræðir við Matheus Nunes AFP/Darren Staples
Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Man. City 5:1 Wolves opna loka
90. mín. Uppbótartíminn verður 4 mínútur
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert