Jón Daði kominn aftur af stað

Jón Daði Böðvarsson í leik með Reading.
Jón Daði Böðvarsson í leik með Reading. Ljósmynd/Reading

Landsliðsmaðurinn Jón Daði Böðvarsson er mættur til æfinga hjá enska B-deildarliðinu Reading á nýjan leik en Selfyssingurinn hefur verið frá æfingum og keppni síðustu vikurnar vegna meiðsla.

Jón Daði greindi frá því á Twitter-síðu sinni í byrjun nóvember að hann væri með brotið bein í baki og hefur hann verið í meðferð hjá læknateymi enska liðsins. Fram kemur á vef Reading í dag að hann sé byrjaður að æfa á nýjan leik.

„Jón Daði er er mættur aftur til æfinga og það er mjög jákvætt,“ segir Scott Marshall á vef Reading en hann var ráðinn tímabundið sem stjóri liðsins eftir að Paul Clement var rekinn frá störfum í byrjun þessa mánaðar.

Jón Daði fór afar vel af stað með Reading á leiktíðinni og hafði í lok október skorað 7 mörk í 11 leikjum liðsins en hann hefur misst af sex síðustu deildarleikjum liðsins og tíu leikjum alls á tímabilinu. Engu að síður er hann markahæsti leikmaður Reading, sem er í þriðja neðsta sæti B-deildarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert