Félög munu skoða stöðu Sánchez

Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City.
Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City. AFP

Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, telur að fjölmörg félög muni fylgjast með stöðu mála hjá Alexis Sánchez hvað varðar samningaviðræður hans við Arsenal í sumar.

Sánchez, sem lék undir stjórn Guardiola hjá Barcelona, á eitt ár eftir af samningi sínum við Arsenal. Vangaveltur hafa verið um það undanfarið hvort hann muni skrifa undir nýjan samning við Arsenal í sumar eða söðla um.

„Stóru félögin sjá alla jafna til þess að þeirra bestu leikmenn séu bundnir til tveggja eða þriggja ára. Öll félög munu leita leiða til þess að bæta lið sitt í sumar og Sánchez er leikmaður í þeim gæðaflokki sem bætir flest félög heims. Það verður fylgst með stöðu mála hjá Sánchez í sumar,“ sagði Guardiola á blaðamannafundi í gær.

Blaðamannafundurinn var haldinn í aðdraganda leiks Manchester City gegn Arsenal í undanúrslitum ensku bikarkeppninnar í knattspyrnu karla sem háður verður á Wembley klukkan 14.00 í dag. Leikurinn verður í beinni textalýsingu hér á mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert