Fjórði í röð og Þór/KA eltir toppliðin

Sandra María Jessen kemur Þór/KA yfir í leiknum í dag.
Sandra María Jessen kemur Þór/KA yfir í leiknum í dag. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

Þór/KA og Keflavík mættust í 5. umferð Bestu-deildar kvenna í fótbolta í Boganum á Akureyri í dag. Þór/KA vann góðan 4:0 sigur eftir að hafa leitt leikinn 1:0 lengi vel.

Norðankonur eru komnar í tólf stig eftir fjóra sigurleiki í röð og elta toppliðin tvö. Keflavík er enn án stiga á botni deildarinnar.

Fyrri hálfleikurinn var bráðfjörugur og hraður. Leikmenn Þórs/KA sóttu mun meira og lágu á köflum á Keflvíkingum. Inn á milli komu hraðar og ágætlega útfærðar sóknir gestanna.

Aðeins eitt mark var skorað í hálfleiknum. Sandra María Jessen skallaði boltann í bláhornið hægra megineftir góða fyrirgjöf Huldu Óskar Jónsdóttur, 1:0. Var þetta níunda mark Söndru Maríu á tímabilinu.

Þrátt fyrir gott spil heimakvenna og nokkrar skottilraunir tókst þeim ekki að bæta við marki. Boltinn rataði ekki á markið og það sem þangað fór hirti Vera Varis af öryggi. Markvörður Þórs/KA þurfti í eitt skipti að taka á honum stóra sínum þegar Elianna Beard var að sleppa í gegn.

Jafnræði var með liðunum í byrjun seinni hálfleiks en fljótlega tóku heimakonur öll völd. Fyrst rigndi skotum að marki Keflvíkinga áður en mörkin fóru að hrannast upp. Á innan við fimmtán mínútu komu þrjú mörk heimaliðsins, Ísfold Marý Sigtryggsdóttir, Margrét Árnadóttir og Karen María Sigurgeirsdóttir skoruðu, og staðan þá orðin 4:0.

Karen María Sigurgeirsdóttir með boltann í kvöld. Hún skoraði eitt …
Karen María Sigurgeirsdóttir með boltann í kvöld. Hún skoraði eitt markanna. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

Það sem eftir lifði leiks skiptust liðin á sóknum en Þór/KA hefði vel getað bætt við mörkum. Ekki vantaði færin. 

Vera Varis varði oft á tíðum glæsilega og hinum megin var Shelby Money mjög örugg þegar grípa þurfti inn í.

Lið Þórs/KA spilaði með þriggja manna varnarlínu í leiknum. Kimberly Dóra Hjálmarsdóttir fór þar á kostum í stöðu sem hún er ekki vön. Annars voru heimakonur að spila heilsteyptan og góðan leik.

Keflvíkingar voru full brokkgengir og töpuðu áttum þegar leið á leikinn. Vera Varis hreinlega kom í veg fyrir stærra tap.

Bæði lið verða svo að fá hrós fyrir að mæta í leikinn til að spila fótbolta og hafa gaman. Dómari leiksins flautaði þrjár aukaspyrnur allan leikinn og hvorki heyrðist kvartað né vælt yfir smá nuddi og innköstum sem menn vildu fá en fengu ekki.

Einmitt þannig á fótbolti að vera og mættu mörg karlaliðin taka sig á varðandi tuð, óþarfa brot og annað sem kvennafótboltinn virðist að mestu laus við.

Þór/KA 4:0 Keflavík opna loka
90. mín. Elianna Beard (Keflavík) á skot yfir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka