Tíu Víkingar náðu þriggja stiga forskoti

Grétar Snær Gunnarsson og Aron Elís Þrándarson í skallabaráttu í …
Grétar Snær Gunnarsson og Aron Elís Þrándarson í skallabaráttu í kvöld. mbl.is/Óttar Geirsson

Víkingur úr Reykjavík er með þriggja stiga forskot á toppi Bestu deildar karla í fótbolta eftir sigur á FH, 2:0, í 6. umferðinni á Víkingsvelli í kvöld. Víkingur er með 15 stig en FH er með 12 eins og Breiðablik.

Fyrri hálfleikur var mjög rólegur og gekk báðum liðum illa að skapa sér færi. FH fékk þó kjörið færi til að skora fyrsta mark leiksins á 41. mínútu er Sigurður Bjartur Hallsson slapp einn í gegn. Ingvar Jónsson gerði vel í að verja frá honum.

Víkingur refsaði hinum megin er Aron Elís Þrándarson skoraði eina mark fyrri hálfleiks með skemmtilegri hælsendingu eftir fyrirgjöf frá Jóni Guðna Fjólusyni og staðan 1:0 meisturunum í vil í hálfleik.

Rétt eins og í fyrri hálfleik voru færin fá í seinni hálfleik. Sigurður Bjartur skallaði framhjá á 63. mínútu en annars var lítið um opin marktækifæri.

Það dró hins vegar til tíðinda á 76. mínútu þegar Nikolaj Hansen fyrirliði Víkinga fékk sitt annað gula spjald og þar með rautt fyrir brot á varamanninum Vuk Oskari Dimitrijevic og voru heimamenn manni færri síðasta hluta leiksins.

Þrátt fyrir það fékk Helgi Guðjónsson gott færi til að tvöfalda forskotið á 82. mínútu er hann kom boltanum framhjá Sindra Kristni Ólafssyni í marki FH en Ástbjörn Þórðarson bjargaði á línu.

Tveimur mínútum síðar var Helgi aftur á ferðinni og þá tvöfaldaði hann forskot heimamanna er hann skallaði glæsilega í netið eftir fyrirgjöf frá Karli Friðleifi Gunnarssyni frá vinstri. Var FH ekki líklegt að skora eftir það og Víkingar fögnuðu sterkum sigri.

Víkingur R. 2:0 FH opna loka
90. mín. Það verða að minnsta kosti sex mínútur í uppbótartíma. Nóg eftir.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert