Tvö rauð og dramatík í sigri FH

Arna Eiríksdóttir úr FH á fleygiferð gegn Þrótti.
Arna Eiríksdóttir úr FH á fleygiferð gegn Þrótti. mbl.is/Eyþór Árnason

FH tók á móti Þrótti í fjórðu umferð Bestu deildar kvenna í fótbolta í dag. Hafnfirðingar sigruðu 1:0 með marki Breukelen Woodard í blálokin.

FH er þar með komið með sex stig eftir fjóra leiki en Þróttarar sitja eftir við botn deildarinnar með aðeins eitt stig.

Mikill hraði og barátta einkenndi upphaf leiksins en Þróttarar tóku fljótlega yfirhöndina. Freyja Karín Þorvarðardóttir komst ein gegn Aldísi Guðlaugsdóttur, markverði FH, eftir tuttugu mínútna leik en Aldís sá við henni. Rúmum tíu mínútum síðar björguðu FH-ingar á marklínu frá Ísabellu Önnu Húbertsdóttur sem átti skot frá vítateigslínu eftir hornspyrnu gestanna.

FH-ingar tóku við sér þegar leið á hálfleikinn og á fertugustu mínútu vildi FH fá víti þegar Arna Eiríksdóttir virtist vera felld innan teigs en Tomasz Zietal, dómari leiksins, lét leikinn halda áfram við lítinn fögnuð Örnu. í uppbótartíma fyrri hálfleiks átti Þróttur góða sókn þegar Caroline Murray komst aftur fyrir vörn FH og gaf fyrir markið en Aldís kom vel út úr markinu og bjargaði málum fyrir Hafnfirðinga. Staðan 0:0 í hálfleik.

Síðari hálfleikur var öllu jafnari en á 65. mínútu dró til tíðinda. Jelena Kujundzic var þá nálægt því að koma Þrótti yfir en skalli hennar á markteig eftir hornspyrnu var laus og Aldís varði, Aldís kom boltanum hratt í leik og hinum megin á vellinum var Breukelen Woodard við það að sleppa í gegn þegar Lea Björt Kristjánsdóttir togaði hana niður. Aukaspyrna dæmd og rautt spjald á Leu.

Breukelen Woodard skoraði sigurmarkið.
Breukelen Woodard skoraði sigurmarkið. Ljósmynd/FH

FH-ingar tóku yfir leikinn en áttu erfitt með að skapa sér teljandi færi og Þrótti tókst að halda sjó. Á 90. mínútu fékk Andrea Rán Snæfeld sitt annað gula spjald og þar með rautt fyrir að sparka boltanum í burtu löngu eftir að Tomasz hafði flautað rangstöðu. Skelfilegt dómgreindarleysi hjá Andreu Rán og Þróttur fékk líflínu.

Það voru þó heimakonur sem kláruðu leikinn með marki Woodard eftir fyrirgjöf Helenu á sjöttu mínútu uppbótartíma, 1:0 sigur FH niðurstaðan í leik sem Þróttarar mega vera svekkt með að tapa.

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

FH 1:0 Þróttur R. opna loka
90. mín. Andrea Rán Hauksdóttir (FH) fær rautt spjald Andrea nei nei nei, sparkar boltanum í burtu löngu eftir að Tomasz flautar!! Réttilega fær hún sitt annað gula spjald. Þvílíkt klúður!
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert