Búin að tapa áður en leikurinn byrjar

FH-ingar fagna marki í dag.
FH-ingar fagna marki í dag. mbl.is/Eyþór

Þó Heimir Guðjónsson þjálfari FH hafi verið ánægður með úrslitin í dag þegar FH vann Vestra í 5. umferð Bestu deildar karla var hann ekki endilega ánægður með spilmennsku FH. Við ræddum við Heimi strax eftir leik.

Ertu ánægður með leik FH í dag?

„Ég er ánægður með sigurinn. Síðan er ég ánægður með síðari hálfleikinn en ég er ekki ánægður með fyrri hálfleikinn. Þar vorum við ekki góðir. Þeir voru á undan í alla bolta og náðum ekki upp okkar spili.

Þeir voru líka klókir og góðir í því að drepa hraðann í leiknum. Við leyfðum þeim það. Í síðari hálfleik náum við að auka hraðann og á endanum held ég að þessi sigur sé sanngjarn."

Það var eins og það væri ákveðið kæruleysi í leik FH í fyrri hálfleik. Ertu sammála því?

„Kannski ekki kæruleysi en þessi grunnvinna sem þú þarft að vinna til að vinna fótboltaleiki var ekki til staðar í fyrri hálfleik. Menn voru að reyna en t.d. sóknarlega hafði maðurinn á boltanum aldrei marga möguleika því það vantaði alla hreyfingu á liðið en það tókst að laga það í síðari hálfleik."

FH mætir Víkingum í næsta leik á útivelli. Hvernig sérðu þann leik fyrir þér?

„Við erum að fara á erfiðan útivöll og þurfum að æfa vel í vikunni til að vera klárir. Víkingar eru orðnir þannig lið á heimavelli að yfirleitt eru liðin búin að tapa áður en leikurinn byrjar og ef við ætlum að láta það gerast þá eigum við ekki séns en ef við ætlum að mæta þeim á fullum krafti þá eigum við möguleika."

Myndir þú fyrirfram samþykkja eitt stig úr þeirri viðureign?

„Fyrirfram er FH þannig íþróttafélag og þannig innréttað íþróttafélag að það væri aldrei ánægt með eitt stig gegn neinu liði,“ sagði Heimir í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert