Þórir í Laugardalinn

Þórir Guðjónsson í leik með Fram síðasta sumar.
Þórir Guðjónsson í leik með Fram síðasta sumar. mbl.is/Óttar Geirsson

Knattspyrnumaðurinn Þórir Guðjónsson er genginn í raðir Þróttar úr Reykjavík frá uppeldisfélagi sínu Fram.

Samningur Þóris við Fram rann út í lok síðasta árs og hefur hann því verið án félags í að verða hálft ár.

Þórir, sem er 33 ára og hefur lengst af leikið sem framherji, mun nú taka slaginn með Þrótti, sem leikur í 1. deild.

Hann á að baki 157 leiki í efstu deild með Fram, Val, Fjölni og Breiðabliki þar sem Þórir hefur skorað 35 mörk.

Einnig hefur hann leikið 70 leiki í 1. deild og skorað 23 mörk fyrir Fram, Fjölni og Leikni úr Reykjavík. Þróttur er því fimmta Reykjavíkurfélagið sem Þórir leikur með á ferlinum.

Hann lék á sínum tíma níu leiki fyrir yngri landslið Íslands og skoraði í þeim eitt mark.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert