Gylfi: Vil alltaf spila eins mikið og mögulegt er

Pablo Punyed og Gylfi Þór Sigurðsson eigast við í leik …
Pablo Punyed og Gylfi Þór Sigurðsson eigast við í leik Víkings og Vals á mánudag. mbl.is/Óttar Geirsson

„Það er náttúrlega undir Adda [Arnari Grétarssyni] komið hversu mikið ég spila,“ sagði Gylfi Þór Sigurðsson, leikmaður Vals, á fréttamannafundi á Hlíðarenda í dag.

Gylfi Þór er að koma sér af stað eftir nokkurra mánaða meiðsli og hefur samtals leikið í rúman klukkutíma fyrir Val í tveimur leikjum, 20 mínútur gegn ÍA í undanúrslitum deildabikarsins og hálfleik geng Víkingi úr Reykjavík í leiknum um meistara meistaranna á mánudag.

„Ég vil alltaf spila eins mikið og mögulegt er en auðvitað höfum við verið mjög skynsamir með spiltímann hingað til og höfum hægt og rólega verið að bæta við álagið á mér.

Ég kom bara vel út eftir leikinn í einhverjum mínus gráðum síðast. Ég held að sinin sem var vandamál fyrir jól sé bara í fínum málum,“ hélt hann áfram.

Býst við svipuðum leik

Valur mætir ÍA í 1. umferð bestu deildarinnar á sunnudag og býst Gylfi Þór við svipuðum leik og síðast gegn ÍA í deildabikarnum fyrir rúmum tveimur vikum, sem ÍA vann í vítaspyrnukeppni.

„Ég held að leikurinn á sunnudaginn verði bara mjög svipaður. Við vorum að spila við þá fyrir nokkrum vikum og vitum hversu öflugir þeir eru sem lið, hversu sterkir varnarlega þeir eru.

Ég held að flest lið fari núna í alla leiki til þess að vinna þá þannig að þetta verður hörkuleikur og ég er mjög spenntur fyrir sumrinu,“ sagði hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert