Tók dótturina fram yfir landsliðið

Björgólfur Takefusa fylgist spenntur með HM.
Björgólfur Takefusa fylgist spenntur með HM. mbl/Arnþór Birkisson

Athafnarmaðurinn og fyrrverandi fótboltakappinn Björgólfur Takefusa er eins og flestir Íslendingar komnir í HM-gírinn og fylgist spenntur með íslenska landsliðinu. Björgólfur fylgist með leikjunum í gegnum skjáinn og er búinn að útbúa HM svítu á mexíkóska veitingastaðnum El Santo á Hverfisgötu.

„Þetta er á tveimur hæðum og uppi er ég búinn að gera svona „lounge“ og nú fyrir HM lét ég setja upp risaskjá til þess að búa til HM svítu,“ segir Björgólfur og segist hafa breytt staðnum fyrir HM, bætt við bekkjum og púðum til þess að fólk geti komið sér notalega fyrir. „Það er ótrúlega kósí þarna og skjárinn kemur alveg geðveikt út, þetta er HM svítan.“

Björgólfur ætlar að fylgjast með leik Íslands og Nígeríu á El Santo en hann var upptekinn í föðurhlutverkinu þegar Ísland gerði jafntefli við Argentínu. „Ég var ekki þarna af því ég var með dóttur mína en annars er ég búinn að vera þarna að horfa á leikina,“ segir Björgólfur og segist hafa horft á Argentínuleikinn með öðru auganu enda er þriggja ára dóttir hans ekki með mikla þolinmæði fyrir 90 mínútna fótboltaleik.

Var ekki erfitt fyrir gamlan fótboltamann að geta ekki verð með alla athyglina á svona stórum leik? „Bæði og, ef ég á að vera ógeðslega væminn þá fannst mér bara miklu skemmtilegra að vera með dóttur minni. Af því ég var með hana þessa helgi. Maður horfði með öðru auganu,“ segir Björgólfur og tekur undir að forgangsröðin hafi breyst.

Það er stemming hjá Björgólfi á El Santo.
Það er stemming hjá Björgólfi á El Santo. mbl.is/Arnþór Birkisson

Björgólfur segir að það hafi aldrei komið til greina að fara til Rússlands en hann fór heldur ekki til Frakklands fyrir tveimur árum. „Ég er hvort sem er með besta sætið á El Santo. Nei, það kom ekkert til greina. Eins og mamma segir alltaf það er skemmtilegra að horfa á þetta í sjónvarpinu af því þá getur maður séð endursýningar.“

Spurður að því hvert leyndarmálið sé á bak við góða HM stemmingu segir Björgólfur það ekki vera treyjurnar og fánarnir heldur félagsskapurinn. „Stemmingin verður alltaf skemmtilegust ef þú ert í góðum hóp.“

Björgólfur getur ekki gert upp á milli landsliðsmannanna og segir liðið sjálft vera í uppáhaldi. „Mér finnst þetta ótrúlega flott lið og virðingavert hvernig þeir eru. Það er ekki bara hversu vel þeir vinna saman heldur líka hugarfarið. Þeir eru svo hógværir og gleyma sér ekki í neinu rugli, það spilar svo margt inn í þetta, þjálfarinn og allt þar í kring. Svo líka er eitt að tala um hversu duglegir og góðir þeir eru í fótbolta en það gerist ekkert nema þeir séu með rétta karakterinn. Það er ótrúlegur karakter í þessu liði. Ef þú vilt taka einhverja út þá er Gylfi þannig lagað séð bestur í fótbolta en svo finnst mér Aron einn flottast fyrirliði sem maður hefur séð. Hann er ótrúleg fyrirmynd.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál