Ætlaði að verða dýralæknir

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar. mbl.is/Golli

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar segir að líf hennar myndi aldrei ganga upp nema af því hún er svo vel gift. Þegar hún er ekki að vinna finnst henni best að vera með fjölskyldunni. 

Hvernig myndir þú lýsa sjálfri þér?
„Ég er frekar mikil pollýanna, almennt létt og geng glöð í öll verk. Mér hættir stundum til að vera örlítið óþolinmóð og bý yfir miklu keppnisskapi. Það virðist ekkert ætla að eldast af mér.“

Hvað gefur vinnan þér?
„Vinnan gefur mér innsýn inn í króka og kima íslensks samfélags sem og alþjóðasamfélagsins. Það er ekkert meira gefandi en að hitta nýtt fólk á hverjum degi með ólík sjónarmið og mismunandi bakgrunn.“

Ef þú mættir taka með þér leynigest í matarboð, hver yrði fyrir valinu?
„Barack Obama myndi eflaust vekja lukku. Alltaf léttur og málefnalegur.“

Ertu dugleg að láta drauma þína rætast?
„Ég myndi segja það já. Reyndar dreymdi mig lengi vel um að verða dýralæknir og búa í sveit með stóra fjölskyldu. Það gerist þá bara í næsta lífi. Stjórnmálalílfið er samt ekki síðra, einkum þegar manni er treyst fyrir forystuhlutverki.“

Hvað gerir þú þegar þú ert ekki í vinnunni?
„Eyði tíma með fjölskyldu og vinum, hundinum mínum og spila golf.“

Hvernig lífi lifir þú?
„Ég er yfirleitt á frekar miklum þeytingi og það er sjaldan dauður tími. Hef reyndar verið spurð að því hvort ég sofi líka hratt! Að vera ráðherra krefst ansi mikillar fjarveru frá heimilinu og líf mitt gengi aldrei upp án eiginmannsins til þrjátíu ára.“

Hvað gerir þig hamingjusama?
„Dýrmætustu stundirnar eru með fjölskyldunni. Að sjá börnin vaxa og dafna er það sem gefur lífinu tilgang.“

Hefur þú átt það til að ofkeyra þig, og ef svo er, hvernig hefur þú brugðist við því?
„Þegar álagið er orðið of mikið klikkar ekki að stinga af í sveitina og kjarna sig aðeins.“

Hvað gerir þú til að vinda ofan af þér?
„Ég sting af í sveitina mína í Ölfusi. Klikkar aldrei. Eða fer í góðan göngutúr.“

Uppáhaldsmatur?
„Ég kýs einfaldan mat og þar er íslenska lambakjötið í uppáhaldi. Lax og bleikja eru heldur aldrei langt undan.“

Hvernig er morgunrútínan þín?
„Bestu dagarnir byrja eldsnemma með göngutúr ásamt hundinum mínum eða æfingu með vinkonunum.“

Hvernig skipuleggur þú daginn?
„Ég fer yfir dagbókina sem er vandlega skipulögð með samstarfsfólki mínu.“

Hvernig leggst veturinn í þig?
„Hann leggst ljómandi vel í mig þrátt fyrir óvæntar stefnubreytingar. Það er gott að búa á Íslandi og gaman að vera til.“

Hér er Þorgerður Katrín á góðri stundu með eiginmanni, börnum …
Hér er Þorgerður Katrín á góðri stundu með eiginmanni, börnum og föður sínum sáluga.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál