Selur íbúðina og flytur til Tenerife

Hér eru Svali og Jóhanna með þrjú af börnum sínum.
Hér eru Svali og Jóhanna með þrjú af börnum sínum.

Útvarpsstjarnan Sigvaldi Kaldalóns eða Svali eins og hann er kallaður sem stýrir þættinum Svali og Svavar á K100 er að flytja til Tenerife. Hann og eiginkona hans, Jóhanna Katrín Guðnadóttir, tóku þessa ákvörðun í sumarfríinu. Í samtali við Smartland segir Svali að það sé kominn tími á að vinna minna og lifa meira. 

„Við sátum saman í tjaldi í útilegu í sumar og vorum að ræða framtíðina. Í þessu samtali fórum við úr því að ræða hvað væri gaman að fara til útlanda um næstu jól yfir í það hvers vegna við flyttum ekki bara,“ segir Svali og hlær. Hann segir að í framhaldinu hafi þau skoðað alla möguleika fram og til baka og tekið ákvörðun um að flytja til Tenerife, jafnvel þótt hann hafi aldrei komið þangað. 

„Jóhanna sagði við mig í vor hvað hún væri orðin þreytt á öllu og ég spurði hana af hverju. Þá sagðist hún vera orðin þreytt á harkinu. Okkur skortir samt ekki neitt en við erum alltaf að rembast. Rembast við að komast í frí, rembast við að fara út að borða og rembast við að hafa lífið skemmtilegt. Ég nenni þessu ekki lengur. Ætli þetta hafi ekki verið kveikjan að hugmyndinni þótt hún hafi ekki verið tekin fyrr en löngu seinna. Okkur langar bara til að fara eftir því sem við tölum oft um og það er að vinna minna og lifa meira. Það er svo erfitt að gera það á Íslandi,“ segir Svali. 

Vinir þeirra búa á eyjunni og ákváðu þau að fara og kynna sér aðstæður. Svali og Jóhanna urðu heilluð af eyjunni og ákváðu að setja allt á fullt. Þau settu íbúðina á sölu og hófust handa við að undirbúa flutningana. Svali segir að börnin þeirra hafi tekið þessu ótrúlega vel og séu mjög spennt. 

„Við erum búin að setja íbúðina á sölu og markmiðið er að selja hana fyrir októberlok. Ég er mikið spurður hvers vegna við ætlum að selja íbúðina, hvers vegna við leigjum ekki. Ég held að það sé ekkert öryggi í því að eiga steypu á Íslandi,“ segir Svali.

Aðspurður hvernig börnin taki þessum miklu breytingum segir hann að það séu allir nokkuð kátir. 

„Þeim finnst þetta rosa spennandi. Þau munu fara í skóla og við lifa hefðbundnu fjölskyldulífi. Þau munu læra mikið af þessu og upplifa margt,“ segir Svali. 

Jóhanna og Svali eru að flytja með fjölskylduna til Tenerife.
Jóhanna og Svali eru að flytja með fjölskylduna til Tenerife.

Svali segir að líf barnafjölskyldna á Íslandi sé mjög annasamt og þau hafi fundið mikið fyrir hraðanum og stressinu sem fylgi því að vinna mikið og eiga nokkur börn. 

„Mér finnst allt of mikil keyrsla á lífinu. Ef maður sest niður og horfir í kringum sig þá er lífið alger sturlun. Ég er samt ekkert að dæma aðra, við erum föst á nákvæmlega sama stað og fólkið í kringum okkur. Horfðu bara á Costco-bilunina og viðhorf fólks á okkar aldri til lífsins. Það þurfa allir að eiga allt og gera allt. Þótt þú þykist ekki taka þátt í því þá ertu samt að gera það,“ segir hann. 

Svali hefur aldrei búið annars staðar en á Íslandi og hann hefur aldrei verið með neina sérstaka útþrá. 

„Mig hefur ekki dreymt um að búa annars staðar, ég veit ekkert einu sinni hvort þetta hentar mér en ég mun ekki komast að því ef ég prófa það ekki. Okkur langar bara til að geta notið lífsins meira og verið meira með börnunum okkar. Þetta er ævintýri fyrir alla. Ég held að börnin muni eflast mikið við það að læra spænsku. Svo langar mig að komast í rólegra tempó og afslappaðra umhverfi. En ég geri mér alveg grein fyrir að þetta verður áskorun fyrir mig og okkur öll,“ segir Svali sem er mjög virkur í lífinu. Þeir sem þekkja hann vita að hann vinnur mikið og svo hefur hann verið á kafi í crossfit og útihlaupum.

En hvað verður um Svavar Örn þegar þú verður fluttur til Tenerife?

„Svavar mun halda áfram í fjölmiðlum á einn eða annan hátt. Ég mun leiðbeina honum með skemmtilegt verkefni ef hann þarf á því að halda,“ segir Svali en saman hafa þeir stýrt þættinum Svali og Svavar. 

Svali segir að þau hafi fengið ótrúleg viðbrögð frá fjölskyldu og vinum þegar þau sögðu frá því að þau ætluðu að flytja til Tenerife. 

„Fólk talar mikið um hvað við séum hugrökk. Ég er svo hissa á því að fólk tali um það því mér finnst þetta svo sjálfsagt. Að gera breytingar á lífi sínu,“ segir hann. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál