Tvíburarnir: Gefðu ástarlífinu meira pláss

Elsku Tvíburinn minn,

þú ert svo þrælskemmtileg persóna og sjáðu hvað þú ert heppinn að fá að hanga með sjálfum þér. Þú verður að átta þig á því að þú getur ekki þóknast öllum sýknt og heilagt, svo segðu það sem þér finnst um málin, en talaðu bara fallega.

Þar sem heppnin er þér hliðholl í þessum mánuði ertu fær um að framkvæma stórkostlega hluti. Gerðu þér þó ekki upp afsakanir eða laumastu í burtu, það væri eini svarti bletturinn á þessu tímabili. Taktu lífinu eins fagnandi og þú getur og eins oft og þú getur. Einnig þegar allt virðist sem á heljarþröm, því það mun leiða þig til góðs og gleði.

Í ástarmálunum finnst þér oft enginn skilja þig til fulls og þá hættir þér til þess að stökkva fyrirvaralaust úr samböndum. Sýndu þolimæði, þótt það sé kannski ekki þitt uppáhald, og gefðu ástarlífinu meira pláss. Þó að hlutirnir séu ekki að fara á þeim hraða sem þú vilt, þá er samt að raðast upp svo ótrúlega skemmtileg stemning og þú skynjar að þér líður betur og betur.

Þú átt líka eftir að gera mikið til þess að líta vel út og að vera í góðu formi. Þegar þú sérð hverju þú getur áorkað í þeim málum með því að breyta bara einhverju á hverjum degi, þá hopparðu hæð þína.

Það eru svo margir að bíða spenntir eftir því að fá að hitta þig og það verða töluvert fleiri veislur og ferðalög en þú bjóst við. Þú ert nefnilega hrókur alls fagnaðar og ekkert partý ætti að vera án þín. Þú hefur haft þær hugsanir að það sé verið að svíkja þig, hefur verið efins og ekki viss um hvort þú getir stólað á vissar manneskjur. En það á ekki að koma þér á óvart því þú ert með bein í nefinu, svo láttu þetta fólk vita hvað þú vilt og hvernig þú vilt hafa hlutina. Svo skaltu ákveða hvort þínar hugsanir séu réttar eða rangar. Trúðu og treystu er lykillinn að næsta mánuði, þá verður allt fullkomið.

Knús og kossar,

Sigga Kling

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál