Tvíburinn: Vorið kallar á nýja vinnu

Elsku Tvíburinn minn,

þú ert að fara inn í glymjandi skemmtilegt ár sem þú byrjar að taka með trompi upp úr miðjum janúar. Það eina sem getur stoppað þig aðeins er að ef þú ert með annan fótinn í fortíðinni og hinn í framtíðinni þá pissarðu á nútíðina. En nútíðin er og verður alltaf eina stundin sem þú átt í raun. Það leysast upp gömul sárindi og fyrirgefning og friður tindra í kringum þig fyrstu mánuði ársins. Þú ert svo tilbúinn að gefa þig allan í ástina, sem þú hefur kannski ekki verið alveg 100% viss um þú ættir að gera.

Júpíter er svo yndislega ferskur og vinalegur og hjálpar þér í staðfestunni og gleðinni á sama tíma. Þú þarft að skoða það vel að hamingjan er ekki fólgin í skynseminni, heldur ímyndunaraflinu og þegar þú bætir ímyndunaraflinu við kátínu þá sérðu stjörnurnar skýrar.

Vormánuðir kalla þig í nýja og athyglisverða vinnu eða efla hag þinn í þeirri vinnu eða námi sem þú ert í. Þetta er að öllu leyti betra ár en í fyrra, en þá kláraðirðu líka svo margt og sást betur hvað þú vilt í raun og veru. Svo í huga þínum sé ég þú þakkar fyrir síðasta ár og munt svo sannarlega bjóða þetta velkomið sem 20 falt betri tíð en þú hafðir þorað að vona.

Að vísu byrjar allt með voninni, svo þú skalt treysta á að það sem þú vonar verði, því að þú skapar líf þitt í raun jafnóðum með hverri hugsun sem fæðist. Svo slökktu á erfiðum hugsunum, sem er líkt og að slökkva á sjónvarpinu og kveiktu svo aftur og skiptu um rás.  Þú ert með töluna 11 sem er jafnt og tveir og það er masterstala samkvæmt indverskri formúlu. Talan 11 er tákn tveggja sverða, sem standa beint upp í loftið eins og hlið að heimili. Þetta skapar rísandi hugrekki og fær þig til að líða eins og þú sért besti herforinginn á svæðinu. Það eina sem getur hindrað er að annað sverðið reyni að stinga í hitt. En það ert bara þú sjálfur sem lemur þig niður fyrir einhverja vitleysu sem skiptir alls engu máli þegar upp er staðið.

Sumarið er sveipað ástríðu og það sem lætur þig finna ástríðuna í sjálfum þér og mun koma til þín á silfurbakka uppúr miðjum maí. Þetta er ár „greddunnar“ en það að vera graður í eitthvað sem maður vill þýðir einfaldlega að óska einhvers virkilega, standa svo upp og sækja það án þess að hika. Fjölskyldumeðlimir verða ekki alltaf sammála þeim skrefum sem þú tekur þegar líða tekur á árið, en þetta eru þín skref og ÞÍNAR ákvarðanir, svo láttu þessar athugasemdir þér í léttu rúmi liggja.

Það er ekkert ömurlegt að gerast hjá þér á þessu ári gullið mitt og ekkert helvíti í raun til nema það sem þú skapar í þínum eigin huga. Og þar sem masterstalan 11 fylgir þér geturðu hreinsað allt rugl út og hafið nýja gleðiorrustu.

Kossar og knús,

Sigga Kling

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál