Annar tvíburinn fór á meðvirkninámskeið og hinn situr eftir í sárum

Hvernig upplifun er það þegar samstíga tvíburasystur vaxa í sundur …
Hvernig upplifun er það þegar samstíga tvíburasystur vaxa í sundur vegna meðvirknisnámskeiðs. Elen Aivali/Unsplash

El­ín­rós Lín­dal fjöl­skylduráðgjafi svar­ar spurn­ing­um les­enda Smart­lands. Hér fær hún spurningu frá tvíbura sem upplifir sig utangátta því tvíburasystirin fór á meðvirkninámskeið og talar lítið við sína bestu vinkonu núna. 

Hæ Elínrós.

Ég er tvíburi og upplifi mikla vanlíðan þessa dagana. Tvíburasystir mín ákvað að fara á meðvirkninámskeið og hegðun hennar hefur gjörbreyst í minn garð. Hún ýtir mér stöðugt frá sér. Við höfum alltaf verið miklar vinkonur og gert hluti saman en nú næ ég varla í hana. 

Hún er farin að tala öðruvísi. Tönglast á því að hún sé að setja mér og öðru fólki mörk og mér líður eins og meðvirkninámskeiðið sem hún er á sé að umturna henni. Auk þess finnst mér smávegis vandræðalegt fyrir okkar hönd að hún sé á einhverju námskeiði um meðvirkni þar sem það er enginn alkahólisti í fjölskyldunni okkar. Nema kannski amma. Hún var svolítið blaut en hún er látin og kannski smá furðulegt frá mínum bæjardyrum séð að hún sé að vinna í meðvirkni látinnar manneskju. Getur vandi ömmu okkar sem þótti sopinn góður valdið því að systir mín þurfi að fara á meðvirkninámskeið? Mér finnst þetta bara orðið einum of mikið og vil bara fá gömlu hana til baka. 

Hvað mælir þú með að ég geri í málunum?

Bestu kveðjur, XOX

Elínrós Líndal fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda Smartlands.
Elínrós Líndal fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda Smartlands. Ljósmynd/Tinna

Sælar.

Bréfið frá þér finnst mér skemmtilegt innlegg inn í umræðuna um sjálfsvinnu og áhrif breytinga á náin sambönd.

Mín skoðun er sú að ekkert helst óbreytt að eilífu. Að annaðhvort séu náin sambönd okkar að verða betri eða að við séum að þroskast í sundur. Það getur jafnvel falið í sér talsverða vinnu að halda góðum tengslum.

Ef þig langar að varðveita sambandið ykkar systra þá er það eina í stöðunni fyrir þig núna að vera opin, áhugasöm og forvitin um það sem hún er að gera. Hvað er það versta sem gæti gerst ef hún fær að vera sérfræðingur í meðvirkni núna? Kæmi ekki bara eitthvað áhugavert inn í samband ykkar?

Hvernig sér hún drykkju ömmu ykkar? Hvaða áhrif hafði drykkja ömmunnar á kjarnafjölskylduna? Hvernig upplifir hún sig meðvirka? Langar hana að þú sért með sér á þessu námskeiði? Er eitthvað sem hún getur kennt þér til að gera lífið þitt betra?

Góðar systur eiga að mínu mati að ala hvor aðra aðeins upp. Ekki á leiðinlegan hátt heldur á fallegan hátt. Það sama má segja um öll önnur sambönd. Þú ert með styrkleika sem vega upp hennar veikleika og öfugt.

Það er þó eitt sem ég vil að þú vitir sem gæti gert líf þitt aðeins bærilegra. Þegar einstaklingur er kominn upp brekkuna í meðvirknifræðum þá fær hann oftast góða yfirsýn yfir líf sitt og annarra. Hlustunarmörkin verða sterkari sem þýðir að sjálfsvinnan fer að snúast meira um einstaklinginn sjálfan. Fókusinn verður vanalega á að setja sjálfum sér mörk. Ég hef aldrei séð sjálfsvinnu af þessum toga hafa neikvæð áhrif til lengri tíma. Svo síður sé. Fólk verður vanalega brosmildara, léttlyndara og á auðveldara með lífið hér og nú.

Flestar bækur um meðvirkni snúast um ákveðna hegðun sem einstaklingur sýnir í aðstæðum sem reyna á. Það getur verið að systir þín hafi sagt já þegar hún meinti nei. Það getur einnig verið að hún sé að finna sjálfa sig og að þroska persónuleika sinn án þín. Þú þarft ekki að vera hrædd við það.

Hvað getur þú gert til að færa fókusinn af henni yfir á sjálfa þig? Er eitthvað sem þig langar að læra eða prófa?

Það er eitthvað svo ótrúlega fallegt við söknuð í þess konar vináttu sem þú lýsir í bréfinu þínu. Það er merki um getu þína til að mynda tengsl.

Ef þú ert til í að gera hvað sem er fyrir þennan vinskap þá mæli ég með að þú setjist niður með henni og segir í örfáum setningum hversu miklu máli hún skiptir fyrir þig. Hvað sé áskorun fyrir þig í sambandi við hennar sjálfsvinnu? Að þig langi að vera hluti af lífi hennar áfram og hvort það sé eitthvað sem þú getir gert til að svo verði að veruleika.

Mundu bara að setja fókusinn á þig og þínar tilfinningar!

Bestu kveðjur, Elínrós Líndal ráðgjafi

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Elínrós spurningu HÉR. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál