Getur ekki aðstoðað son sinn fjárhagslega og er miður sín

Það velur sér engin móðir eða faðir að missa tengsl …
Það velur sér engin móðir eða faðir að missa tengsl við börnin sín. Sama hversu flókin málin eru þá má alltaf vinna í þeim. mbl.is/Colourbox

El­ín­rós Lín­dal ráðgjafi svar­ar spurn­ing­um les­enda Smart­lands. Hér fær hún spurn­ingu frá konu sem getur ekki stutt son sinn fjárhagslega til náms. Hann hefur lokað á hana.  

Sæl.

Ég á barn af fyrra hjónabandi sem er að fara í háskólanám. Hann er að verða tvítugur. Hann flutti að heiman 17 ára og hefur unnið með skóla og séð um sig má segja síðan. Hann er mjög duglegur einstaklingur, það vantar ekki. Við stjúpi hans og ég höfum ekki tekjur til að aðstoða fjárhagslega. Það skilst ekki og nú er þessi einstaklingur búinn að loka á okkur vegna þessa. Þetta særir mig gríðarlega! Ég vil ekki að barnið mitt þurfi að taka námslán en ég get ekki aðstoðað. Getur 19 ára einstaklingur gert svona kröfur á veika foreldra sína? Er ég vont foreldri að finna ekki lausn hjá mér? Samfélagið segir barninu mínu að svo sé og ég sef ekki fyrir þessu. Ég elska barnið mitt af öllu hjarta svo ég taki það fram.

Kveðja X

Elínrós Líndal einstaklings- og fjölskylduráðgjafi.
Elínrós Líndal einstaklings- og fjölskylduráðgjafi. mbl.is/Tinna Magg

Sælar X. 

Mig langar að byrja að óska þér innilega til hamingju með son þinn. Ég les að hann er með mikinn metnað fyrir sína hönd og hefur náð tökum á að sjá fyrir sér sjálfur svona ungur að aldri. Það er ekki sjálfsagt eða sjálfgefið. Þvílík hetja sem hann er. 

Ég veit að það getur enginn sett sig í þín spor nema hafa verið í þeim sjálfur. Þú ert mjög hugrökk að senda þetta bréf og berskjalda þig um málið. 

Stutta svarið er að sonur þinn er fullorðinn og er að taka ákvarðanir um sitt líf sem hefur ekkert með þig að gera. Hann er ekki sá eini hér á landi á sínum aldri að taka ábyrgð á sér og eflaust ekki sá síðasti. Af þeim sökum þarftu ekki að hafa áhyggjur af því að samfélagið dæmi þig. Þú ert að gera þitt besta og ég trúi því. 

Langa svarið mitt byggist á kenningum um tengsl og meðvirkni. Það er mun flóknara svar og mæli ég með því að þú leitir til sérfræðings og vinnir með honum í einhvern tíma til að skilja hvar hægt er að vinna með þér í því.   

Rannsóknir sýna að sífellt fleiri alast upp við skert geðtengsl við foreldra sína. Að lifa með örugg geðtengsl er ólíkt því að alast upp með tengslavanda eða tengslarof. 

Manneskja með örugg geðtengsl er sú sem elst upp í nálægð við báða foreldra sína. Foreldrarnir eru tilfinningalega til staðar og veita barninu það sem það þarf hverju sinni. 

Fólk með örugg geðtengsl á auðveldara með að setja áhersluna á sjálft sig. Það heldur mörkum betur en þeir með skert geðtengsl gera og taka hlutunum í umhverfinu ekki eins persónulega. 

Það er hægt að vinna með geðtengsl og endurforrita heilann með ákveðinni samvinnu við sérfræðinga og í 12 spora samtökum. Það tekur tíma en er gulls ígildi að mínu mati. 

Ég trúi því að fegurðin búi í hinu hversdagslega og stundum geti sárustu augnablik lífsins fætt af sér eitthvað fallegt og gott. Ef þú sjálf ert ekki með örugg geðtengsl – og hafðir ekki báða foreldra þína til að styðja við þig  gæti verið að það sem er í gangi á milli sonar þíns og þín hafi ekkert með ykkur að gera persónulega og snúist raunverulega ekki um peninga heldur sé ættarsagan og áföll að færast á milli kynslóða. 

Ég myndi leita allra leiða til að stoppa það. 

Gangi þér alltaf sem best. 

Kær kveðja, Elínrós. 

Ligg­ur þér eitt­hvað á hjarta? Þú get­ur sent El­ín­rós spurn­ingu HÉR

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál