c

Pistlar:

4. nóvember 2018 kl. 18:20

Guðrún Kristjánsdóttir (systir.blog.is)

Kanónur, klæði, krem, kristallar, cacaó og einn karl!

Fimmtudaginn 8. nóvember klukkan fimm ætlar Systrasamlagið sannarlega að standa undir nafni þegar margar af helstu kanónum landsins koma saman og kynna undursamlegar vörur sínar, líf og list. Þær eru Sirrý Örvars, Sóley Elíasdóttir, Kamillia Ingibergsdóttir og Snorri Ásmundsson.

KANÓNUR, KLÆÐISirrý Örvars er einn af okkar allra fremstu textílhönnuðum. Þar sem hún býr í Belgíu og hefur ekið um sveitir Belgíu og Frakklands undanfarin ár kviknaði hugmyndin að HÚN BySirrý hörlínunni. Það var svo á ferðalagi hennar um Litháen sem Sirrý komst í kynni við magnað fyrirtæki sem vinnur með allan Mið-Evrópska hörinn, allt frá hrávinnslu að spuna og frá vefnaði að saumaskap. Heillandi ferlið og gæðin gerðu það að verkum að fyrstu vörur bySirrý urðu að veruleika. Vistæn rætkun og umhverfisvæn framleiðsla eru mjög mikilvægir þættir í hugmyndinni að baki fatnaði hennar, ásamt þægilegum sniðum og líflegum litum og munstrum sem hefur gert bySirrý línuna vinsæla meðal viðskiptavina Systrasamlagsins undanfarin ár. Sirrý verður á svæðinu og kynnir fatnað sinn.

Sóley Elíasdóttur stofnanda og eiganda Sóley Organics þarf vart að kynna. Við systur erum svo lánsamar að hafa fengið að fylgjast með öllu hennar ferli frá fyrsta degi. Það kom hvorki okkur né öðrum, sem hana þekktu, á óvart að hún hæfi framleiðslu lífrænna græðismyrsla og síðan snyrtivörulínu sem er orðin þekkt um allan heim. Sóley kemur í heimsókn. Við fáum að njóta handanudds þar sem tvær af hennar vinsælustu vörum, mjúk og græðir koma við sögu.

Kamilla Ingibergsdóttir kakódrottning kynntist einstöku cacaói frá Gvatemala þegar hún var komin á yfirsnúning og þurfti mest á því að halda. Það skilaði henni svo miklu að síðan hefur hún verið ástríðufull cacaósölukona og heldur reglulega vinsælar cacaóhugleiðslur. Kamilla sér Systrasamlaginu fyrir cacaói beint frá býli. M.a. í okkar vinsæla Hátíðar-cacaó bolla sem er bæði bragðgóður og uppfullur af magnesíumi, andoxunarefnum en að auki hjartastyrkjandi og eykur súefni til heilans. Í tilefni dagsins selur Kamilla hreint kakó til heimabrúks en ætlar um leið að kynna kyngimagnaða kristalla sem Systrasamlagið hóf nýlega sölu á. 

Þá er það rúsínan í pylsuendanum því þetta síðdegi kemur einn karl við sögu. Listamaðurinn Snorri Ásmundsson fær þann heiður að vígja Boðefnagallerí Systrasamlagsins sem verður undir listrænni stjórn Önnu Kristínar Þorsteinsdóttur textílhönnuðar í framtíðinni. Snorri mun selja myndir við vígsluna sem okkur rennir í grun að geti orðið jólamyndin í ár. 
Sýning Snorra í Systrasamlaginu mun standa til áramóta.

Allir eru auðvitað velkomnir.
 

Guðrún Kristjánsdóttir

Guðrún Kristjánsdóttir

...er áhugakona um heimspeki, heilsu, lífeðlisfræði, jóga, sjósund, hugleiðslu og ferðalög. Á bakgrunn í blaðamennsku, leikhúsi, var kynningarstjóri Listahátíðar í Reykjavík, er stjórnmálafræðingur, jógakennari og stundaði meistaranám í sálgæslufræðum við guðfræðideild HÍ. Er að auki ljón, nörd, fæðu aktívisti og hin systirin í Systrasamlaginu.

Meira