c

Pistlar:

22. febrúar 2018 kl. 17:09

Marta María Jónasdóttir (martamaria.blog.is)

Þetta geta peningar ekki keypt

Vor- og sumartískan 2018 kallar á nokkra hjartastyrkjandi dropa, jafnvel bara heila flösku af skriðdrekaolíu ef því er að skipta. Málið er nefnilega að þeir tískustraumar sem eru ráðandi akkúrat núna hafa sést margoft áður. Það getur verið erfitt fyrir tískuskvísur til sjávar og sveita að kyngja því og taka fagnandi á móti gjöfinni.

Mögulega vorum við búin að kveðja útvíðar buxur og pils yfir buxur fyrir lífstíð. Innst inni lofuðum við okkur að við myndum ekki láta sjá okkur dauðar í þessu aftur. En nú þurfum við að endurskoða þetta því sumartískan í ár er full af fortíðardraugum.

Þetta er svolítið eins og með gamla kærastann sem við ætluðum aldrei að tala við aftur en svo dúkkar hann upp í fjölskylduboði sem nýi maki ömmu þinnar og þú þarft að láta eins og ekkert hafi í skorist. Þú neyðist til að taka sparibrosið á þetta og núllstilla þig.

Þegar þú ert búin að núllstilla á þér höfuðið er fátt annað en að reyna að horfa á útvíðar buxur með nýjum gleraugum og gefa þeim séns. Flestar íslenskar konur hafa verið fastar í niðurmjóum gulrótarbuxum í næstum áratug og því verður átak að koma sér aftur í buxur með flaksandi skálmum. Það þarf nefnilega að hugsa heildarútlitið upp á nýtt. Með útvíðum buxum breytist skótískan og svo skiptir hæðin á mittislínunni máli. Ef þú ætlar að gyrða púffermaskyrtu úr þunnu lekkeru efni ofan í buxnastrenginn er gott að hafa buxurnar háar í mittið. En ef þú ætlar að vera í víðum peysum yfir skiptir hæðin á mittislínunni ekki höfuðmáli.

Ef þú ætlar að gyrða ofan í buxurnar þarftu að setja á þig huggulegt belti. Önnur hver kona er reyndar orðin sérmerkt ítalska tískuhúsinu Gucci. Þetta fer að verða eins og fötin sem eru merkt EIGN LANDSPÍTALANS. Allir sérmerktir og alsælir enda er þetta orðið þannig að það getur enginn sérmerkt sig með ítalska lógóinu nema eiga smá aur í buddunni. Þetta að vera sérmerktur flokkast því undir stöðutákn. (Við sleppum smálánaumræðunni hér).

Þótt sérmerkt sé stöðutákn vil ég samt ítreka það að peningar geta ekki keypt stíl. Það er ekki nóg að vera sérmerktur í bak og fyrir til að vera greifi götunnar. Við þurfum að kunna að blanda fatnaði þannig saman að hann geri eitthvað fyrir okkur. Hann dragi fram það besta og framkalli hvað við erum mikið með þetta. Og þegar við kaupum okkur fínirí þurfum við að passa vel að góssið sé eitthvað sem endist – það framkalli ekki bara rándýra korters-ánægju og við sitjum eftir með sárt ennið eftir þetta korter, skítblankar og alveg jafnóhamingjusamar og áður.

En stundum þurfum við að taka áhættu því lífið verður náttúrlega hræðilega „boring“ ef við gerum það ekki. Stundum er það þess virði og stundum ekki. Eitt er þó víst að við getum ekki lært af mistökum Kim Kardashian eða Díönu prinsessu. Við þurfum að læra af okkar eigin mistökum því þannig stækkum við og verðum vonandi örlítið betri manneskjur.