c

Pistlar:

3. apríl 2023 kl. 10:32

Linda Sigríður Baldvinsdóttir (lindabald.blog.is)

Fallegt fólk á í erfiðleikum með að finna sér maka

Jæja nú er fokið í flest skjól að mínu mati þegar hjónabandið á undir högg að sækja hjá þeim sem fegurst eru, og hjónaböndin virðast ekki endast jafn lengi hjá þeim og þeim sem ófríðari eru, en þannig er það þó að sögn Harvard háskóla sem gerði könnun þar sem borin var fram spurningin "Eiga fallegir betri sambönd en þeir sem ófríðari eru?" 

Þessari könnun var stýrt af Christine Ma-Kellams og hennar teymis en það sem þau höfðu áhuga á að kanna var hvort líkamlegt aðdráttarafl gegni einhverju hlutverki þegar kemur að ánægju í parasambandi og langlífi sambanda.

Fjórar kannanir af sama toga voru gerðar sem svo sannarlega afhjúpuðu nokkrar ögrandi niðurstöður að mínu mati!

Hér að neðan ætla ég að segja ykkur frá helstu niðurstöðunum á minn hátt og gaman væri að vita hvort að fallega fólkið á Íslandi kannist við eitthvað af eftirtöldu (fallegasta þjóðin)

Það eru of margir möguleikar

Ég held reyndar að hér á Íslandi séum við frekar að fást við of lítinn "stefnumóta markað" en skort á fallegu fólki, þannig að möguleikarnir hér eru líklega eitthvað fátæklegri sökum fólksfæðar í samanburði við landið þar sem þessar kannanir voru gerðar, en lögmálin gætu þó svosem verið hin sömu.

Þrátt fyrir að möguleikarnir til stefnumóta séu töluvert betri erlendis er ég ekkert viss um að það auðveldi hlutina, og í sumum tilfellum geti jafnvel verið til trafala. 

Félagsfræðingurinn Christine Ma-Kellams útskýrir þetta vel, “Ég held að fegurðin gefi þér fleiri möguleika til að mynda sambönd en á sama tíma er erfiðara að verja sambandið fyrir utanaðkomandi ógnum".

Þannig að það að hafa of marga möguleika er kannski ekkert til að hrópa húrra fyrir ef við viljum hamingjurík framtíðarsambönd því að kannski liggur í undirmeðvitundinni hjá þeim sem vinsælastir eru eitthvað sem segir þeim að sá næsti eða næsta gæti kannski haft eitthvað betra uppá að bjóða, og þá er skuldbindingin sem er ein af grunnstoðum farsæls sambands farin þó ekki sé nema í undirmeðvitundinni. 

Ég las einhverstaðar að gerðar hefðu verið rannsóknir á hamingju hjónabanda þeirra sem skikkaðir væru í hjónaband af ættingjum sínum og hinsvegar þeirra sem giftust af fúsum og frjálsum vilja eða af ást, og merkilegt nokk þá kom í ljós að sláandi lítill munur var á hamingju hópanna tveggja. Svei mér ef þeir ástföngnu voru ekki í örlitlum mínusi miðað við hinn hópinn. Þannig að það að hafa of marga valkosti er líklega bara ekki málið heldur það að skuldbinda sig að fullu í sambandinu, eða í blíðu og stríðu. 

Mögulegir aðdáendur fallega fólksins eru á sama tíma hræddir við að nálgast það og finnst hugsunin um að bjóða þeim á deit yfirþyrmandi.Þessir mögulegu vonbiðlar gera sér nefnilega grein fyrir því að þeir eiga marga mögulega keppinauta og leggja ekki í þær skylmingar sem því fylgja og láta þess vegna fallega fólkið bara í friði. Líklega varnar þetta þó frekar þeim sem eru góðhjartaðir og einlægir en þeim sem hafa sjálflægari uppblásin egó.

Fallegar konur hafa það orð á sér að vera merkilegar með sig og virka oft kaldar og fráhrindandi vegna þess að þær kæra sig ekki um of mikla athygli, og kannski á það sama við um fallega karlpeninginn.

Merkilegt nokk þá er fallega fólkið alveg jafn líklegt til að hafa lélega sjálfsmynd og eða skert sjálfstraust og þeir sem ófríðari eru, og það þekki ég vel frá mínum störfum. Mér hefur þótt það alveg ótrúlegt hversu mikill munur er á kynjunum hvað þetta varðar. Karlmenn eru yfirleitt ekkert að burðast með lélega sjálfsmynd eða lélegt sjálfstraust alla jafna en til mín hafa komið hreinar fegurðardísir sem upplifa sig sem ekki nóg af hinu og þessu og yfirleitt alls ekki nógu fallegar. Ég verð alltaf jafn hissa á þessu og spyr mig hvort að þetta sé samfélagsmiðlum og staðalímyndunum að kenna.

Þegar sjálfsmyndin er ekki góð er auðvelt að brjóta viðkomandi niður og nýta sér markaleysið sem gjarnan fylgir og þeir eru auðveld bráð fyrir aðila sem hafa ekkert gott í hyggju með það. 

Við lendum öll í því að vera dæmd útfrá ýmsu sem við gerum og erum en eitt af því sem dæmt verður er útlit okkar. Því miður er algengt að fallega fólkið sé baknagað af þeim sem öfunda það af fögru útlitinu og þá er vinsælt að setja allskonar stimpla á það.

Við könnumst flest við að það er talað um skinkuna (ljóshærð vel útlítandi stelpa) sem í flestum tilfellum er talin heimskari en aðrir og líklegt að hún hafi farið í of margar lýtaaðgerðir (klár öfund yfirleitt)og stundum heyrir maður að strákar séu hommalegir ef þeir eru í fallegri kantinum og hugsa vel um sig. Er eitthvað að því að vera hommalegur? - eru þeir ekki líka karlmenn? (kannski bara menn sem hugsa vel um útlit sitt og framkomu) og þegar við höfum dæmt einhvern samkvæmt stereotýpum þeim sem við búum til þá er erfitt að kynnast viðkomandi á hlutlausum grunni eða að kynnast persónu hans. Það átti svona til dæmis enginn von á því að Kim Kardashian gæti lært lögfræði því að eins og þjóð veit þá geta fallegar konur, hvað þá sexý konur ekki notað heilann á sama hátt og aðrir samkvæmt staðalmyndinni.

Fallega fólkið lendir frekar í því að vera notað á ýmsan hátt

Kannanir hafa einnig leitt í ljós að fallega fólkinu finnst fegurð sín oft vera til trafala í félagslegu tilliti þar sem þeim finnst þau oft vera notuð á ýmsan hátt vegna útlits síns og þeim finnst eins og persónuleiki þeirra sé algjört aukaatriði.

Þeim finnst erfitt að treysta í samböndum þar sem þau þekkja vel hvernig það er að vera notuð t.d kynferðislega og til eins nætur gamans. Þau eru einnig stundum notuð sem hálfgerðar skrautfjaðrir fyrir þá sem vilja skarta sig með fallegu fólki (þekkjum flest hugtakið "Trophy wife" Þess vegna er auðvelt að skilja að þau séu á varðbergi og séu ekki viss um raunverulega fyrirætlun þeirra sem vilja nálgast þau á sambandsgrunni eða á annan hátt. 

Líklega þurfum við hér á klakanum ekki að hafa miklar áhyggjur af þessu öllu saman þar sem við erum öll svo gasalega falleg og klár, en samt er gaman að skoða þennan þátt tilverunnar og mannlegheitanna eins og alla aðra þætti lífsins.

Eins og alltaf þá er ég aðeins einni tímapöntun í burtu frá þér ef þú þarft að taka til í sjálfsmyndinni eða sjálfstraustinu þínu.

Og þar til næst elskurnar segi ég einfaldlega,

Gleðilega páskahátíð - hátíð upprisunnar sem við þurfum svo oft á að halda í okkar eigin lífi.

xoxo

Ykkar Linda

Linda Baldvinsdóttir

Lifecoach og samskiptaráðgjafi

linda@manngildi.is

 

 

 

 

Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Samskipta og lífs-markþjálfi (life Coach) Undanfarin ár hef ég unnið við hvatningu og ráðgjöf, haldið fyrirlestra og námskeið ásamt því að skrifa bækur. Hægt er að hafa samband við mig í tölvupósti, linda@manngildi.is

Meira