c

Pistlar:

6. ágúst 2009 kl. 15:35

Jóna Á. Gísladóttir (jonaa.blog.is)

Sumarið 2009

Sumarið 2009 er sumarið sem Íslendingar kusu að eyða krónunum sínum í bensín, íslenskar vegasjoppur, tjaldsvæði og grillmat og ferðuðust innanlands.

Þetta átti að verða sumarið sem ég gerði nákvæmlega ekki neitt vegna efnahagsástandsins, en varð sumarið sem ég hef aldrei verið hreyfanlegri.

Þrjár sumarbústaðarferðir, ein utanlandsferð, sólarhringsdvöl í sveitasælu Borgarfjarðar og, afar merkilegt í augum þeirra sem þekkja mig: útilega með tjaldi, uppblásnum dýnum, ferðagrilli og tilheyrandi. Þeir tveir, sem eru aðalástæða óhreyfanleika míns almennt, Viddi Vitleysingur og Sá Einhverfi, voru með í för í umræddri útilegu.

Á meðan Viddi gelti óspart á hunda og menn, svaf Sá Einhverfi inni í tjaldi í rúmlega hálfan sólarhring. Þetta er sem sagt sumarið sem ég fann lausn á svefnleysi drengsins. Hér eftir mun ég tjalda í bakgarðinum ef ég vil að drengurinn sofi meira en 5 tíma í einum rikk.

Sumarið 2009 er líka sumarið sem ég varð mér úti um bjórvömp án þess að drekka bjór. Ætli ég verði ekki að skella skuldinni á (stöðugt) sull í hvítvíni og rauðvíni, vöðvaslökun og ótæpilegt magn matar. En bumban líkist bjórvömb hvernig sem á það er litið.

Sumarið 2009 er sumarið sem átti að rigna stöðugt og ég ætlaði að vera óstöðvandi í rithöfundagírnum og uppfull af andagift en breyttist í sumarið sem ég skrifaði ekki neitt. Ekki einu sinni bloggfærslur. Og aldrei á ævinni hef ég verið duglegri að liggja í sólbaði.

Sumarið 2009 var mér afskaplega gott. Og það er ekki búið enn....

Jóna Á. Gísladóttir

Jóna Á. Gísladóttir

 

 

 Ég er nokkuð dæmigerð íslensk útivinnandi kona. Hef lokið grunnnámi í markþjálfun og gengur betur að hjálpa öðrum við markmiðasetningu en sjálfri mér. Mér lætur líka betur að stjórna öðrum en sjálfri mér. 

 netfangið mitt er jonaagisla@gmail.com

 

 

 

Meira