c

Pistlar:

2. júní 2009 kl. 15:56

Jóna Á. Gísladóttir (jonaa.blog.is)

Kot í sveit

Mér og minni familíu var boðið í bústað með Bakarahjónunum um helgina. Dvöldum í Grímsnesinu frá laugardegi til sunnudags. Og þvílík sæla.

Hvernig stendur á því að fólk slakar betur á í bústað heldur en heima hjá sér? Er þetta nálægðin við náttúruna? Að geta setið úti á palli og heyra ekkert nema þyt í laufi og fuglasöng? Umferðarniður víðs fjarri.

Að sjá börnin koma röltandi utan úr móum, drullug upp fyrir haus með prik í hönd fyrir göngustaf er afskaplega gefandi.

Líka að finna þrastarhreiður með fjórum ungum, kyrfilega staðsett upp við húsvegg. Og á einum sólarhring sjá þá stækka, dafna, breiða úr sér og að lokum fljúga út í buskann.

Ég komst að því að eltingaleikur og feluleikur í náttúrunni í ausandi rigningu, vekur upp barnið í manni.

Heiti potturinn lét bíða eftir sér, þ.e. hann hitnaði seint, og Þann Einhverfa þraut þolinmæði, dreif sig í sundbuxurnar og brást ókvæða við þegar hin börnin stoppuðu hann. Ég kom að honum hágrátandi í sorgarferli og ákvað að best væri að leyfa honum að finna hitastigið á eigin skinni. Hann skellti sér því í  17 °C heitan (kaldan) pottinn og entist mun lengur en ég bjóst við.

Seinna tóku svo Gelgjan og Bakarasonurinn miðnætursund í pottinum en þá var hitastigið komið upp í einar 25°C.

Engum virðist hafa orðið meint af.

Mikið langar mig í lítið kot í sveitinni. Það er gott að eiga drauma.

Jóna Á. Gísladóttir

Jóna Á. Gísladóttir

 

 

 Ég er nokkuð dæmigerð íslensk útivinnandi kona. Hef lokið grunnnámi í markþjálfun og gengur betur að hjálpa öðrum við markmiðasetningu en sjálfri mér. Mér lætur líka betur að stjórna öðrum en sjálfri mér. 

 netfangið mitt er jonaagisla@gmail.com

 

 

 

Meira