c

Pistlar:

8. maí 2009 kl. 16:41

Jóna Á. Gísladóttir (jonaa.blog.is)

Föstudags-hugrenningar

Það er föstudagur... svona ef það skyldi hafa farið fram hjá einhverjum.

Það er þægileg tilhugsun að geta farið heim eftir vinnu og þurfa ekki að hreyfa mig út úr húsi frekar en ég vil, alla helgina. Þó mig gruni að Viddi nokkur vitleysingur... loðinn gaur með fjóra fætur, muni pressa á að ég hreyfi mig eitthvað.

Ég fór í ræktina í hádeginu í dag. Spratt upp úr skrifborðsstólnum og ákvað að ég ætlaði að gleyma öllu um frakt til Kína, Kuala Lumpur og Köben, í eins og eina klukkustund.

Kom endurnærð til baka og tilbúin að takast á við tölvupóstana og símtölin sem biðu.

Hver veit nema að ég rífi mig upp á rassgatinu í fyrramálið og taki aðra session í ræktinni. Það er svo yndislegt að hafa nægan tíma. Dunda sér í sturtu, fara með næringuna í hausnum í vatnsgufu og enda þetta allt saman á kaldri sturtu að hætti Ingu Láru vinkonu. Það var hún sem benti mér á þessa pottþéttu leið ef maður vildi líta aaaaaaaaaaalveg einstaklega vel út við sérstök tækifæri. Og þetta svínvirkar. Ég segi það satt. 

Gluggaveðrið heldur áfram og það hefur ekki farið fram hjá mér að rokið og biðin eftir sumrinu hleypur illilega í rassgatið á sumum. En fyrir letingja eins og mig er þetta bara gott mál. Ég get haldið mig innandyra og notið þess að liggja í leti við kertaljós án samviskubits. Það er eins með mig og aðra Íslendinga, sólardagar geta valdið spennu og hækkandi blóðþrýstingi. Við eigum öll að vera utandyra á slíkum dögum að taka til í garðinum, þvo bílinn, sleikja ís á Austurvelli eða ber í sundi.

NÝTA DAGINN NÝTA DAGINN öskrar íslenska þjóðin og hleypur út og suður á undanrennulituðum berum leggjum, á meðan túristarnir í mesta lagi renna frá sér dúnúlpunum og taka ofan rússnesku loðhúfurnar.

Því mun ég bara njóta þess sem eftir lifir af þessu haustlega vori. Sumarið kemur fyrr en varir.   I promise

Jóna Á. Gísladóttir

Jóna Á. Gísladóttir

 

 

 Ég er nokkuð dæmigerð íslensk útivinnandi kona. Hef lokið grunnnámi í markþjálfun og gengur betur að hjálpa öðrum við markmiðasetningu en sjálfri mér. Mér lætur líka betur að stjórna öðrum en sjálfri mér. 

 netfangið mitt er jonaagisla@gmail.com

 

 

 

Meira