c

Pistlar:

5. maí 2009 kl. 0:43

Jóna Á. Gísladóttir (jonaa.blog.is)

I'm still alive in case somebody is interested

Hér er allt við það sama. Tóm helvítis hamingja. Eða þannig.

Fór í fertugs afmæli hjá Bakaranum á föstudag. Varð eitt af þessum partýum sem maður endurlifir í huganum aftur og aftur... brosir breitt eins og bjáni út í loftið við að rifja upp hinar og þessar uppákomur.

Búin að taka nokkur símtöl með vinkonunum og hlæja hrossahlátri af upprifjunum.

Bretinn yfirgaf samkvæmið um þrjúleytið um nóttina, ásamt fleira fólki sem kunni sig. Ég kom syngjandi glöð heim klukkan sjö um morguninn.

Jebb. Eitt af þessum partýum þar sem maður opnar augun morguninn eftir (seinnipartinn) og það fyrsta sem gerist er að það breiðist bros yfir andlitið á manni. Kannist þið við þetta?

Ég er dugleg í ræktinni þessa dagana. Ætla mér að halda því þannig. Fer engum hamförum en mæti hvenær sem ég get mögulega komið því við.

Ég hins vegar geysist lítið um ritvöllinn um þessar mundir. Hef á tilfinningunni að ég sé komin með örlítið ofnæmi fyrir tölvuskjám. Ég hef litla orku til að tala í símann heima hjá mér á kvöldin, eftir að hafa setið með heyrnartól á eyrunum allan daginn í vinnunni. Sennilega er það svipað með tölvuskjáinn. En vonandi er þetta aðeins bráðaofnæmi sem verður skammvinnt.

Við erum að sigla inn í sumarið. Framundan eru vorpróf hjá Gelgjunni og tónleikar hjá Unglingnum í FÍH.

Unglingurinn ætlar að heimsækja mömmslunar sína í Sverige í sumar, Gelgjan mun sækja sitt árlega reiðnámskeið sem er henni ómissandi og Sá Einhverfi fer í sínar heittelskuðu sumarbúðir í tvær vikur. Ég verð að viðurkenna að eyrun á mér eru farin að þrá þá hvíld. Hann er svo hávær blessaður þessa dagana. Allir karakterar í bíómyndum og leikritum, sem hann tekur ástfóstri við, eru óþekku og háværu börnin og hér heyrist stundum ekki mannsins mál þegar Lotta, Emil, Halla hrekkjusvín, Nenni níski og Maggi mjói eru öll saman komin í stofunni hjá mér. Verst þykir mér þó þegar Sá Einhverfi breytist í Sollu stirðu þegar hún er að reyna að ná í tærnar á sér... þau öskur nísta í gegnum merg og bein.

Litli Rasistinn er að íhuga að heimsækja klakann ásamt frænku gelgjunnar en þær eru jafnaldrar og ná afskaplega vel saman og þetta verður mjög skemmtilegt fyrir þær ef af verður.

Svo held ég að þetta sumar verði jafn heitt og sumarð 1991.

Jóna Á. Gísladóttir

Jóna Á. Gísladóttir

 

 

 Ég er nokkuð dæmigerð íslensk útivinnandi kona. Hef lokið grunnnámi í markþjálfun og gengur betur að hjálpa öðrum við markmiðasetningu en sjálfri mér. Mér lætur líka betur að stjórna öðrum en sjálfri mér. 

 netfangið mitt er jonaagisla@gmail.com

 

 

 

Meira