c

Pistlar:

7. apríl 2022 kl. 9:19

Hulda Björk Svansdóttir (huldabjorksvansdottir.blog.is)

Ægir býr í röngu landi

Þeir sem hafa fylgst með okkur Ægi vita eflaust að við erum búin að vera að berjast fyrir því að fá meðferð fyrir Ægi til að hægja á framgangi sjúkdómsins en enn sem komið er hefur okkur ekki tekist það þrátt fyrir mikla baráttu. Ægir er einn af þeim 13% Duchenne drengja í heiminum sem eiga möguleika á svokallaðri exon skipping aðferð sem er verið að þróa í klínískum rannsóknum og við erum innilega þakklát að hann á þann möguleika. Til að reyna að útskýra á einfaldan hátt hvað það þýðir þá er það sem sagt lyf sem hjálpar líkamanum hans að framleiða dystrophin sem er efnið sem hann framleiðir ekki sjálfur fyrir vöðvana sína.

Upprunalega snerist barátta okkar um það að fá lyf samþykkt hér á landi sem hafði verið samþykkt í Bandaríkjunum og virtist vera að hálpa strákunum en sýndi því miður ekki nægjanlega mikla virkni til að sannfæra Lyfjanefnd Landspítalans. Við fengum tvívegis neitun frá þeim sem voru auðvitað gríðarlega mikil vonbrigði. Sérstaklega þar sem við vorum í sambandi við fjölskyldu erlendis sem hafði góða reynslu af lyfinu.

Það þýddi víst ekki að lemja höfðinu við steininn svo við gáfum þá baráttu upp á bátinn en við vildum að sjálfsögðu ekki gefast upp og ákváðum að setja krafta okkar í að vinna í að koma honum erlendis í tilraun. Við höfum nokkrum sinnum verið nálægt því en á síðustu stundu var hætt við eina tilraun og í annarri tilraun var okkur skyndilega tjáð að einungis væri verið að taka inn stráka sem búsettir væru í viðkomandi landi sem var alveg virkilega sárt, ég verð að viðurkenna það.

Í þessum tilraunum sem við höfum verið að sækja um í er staðan þannig að við þurfum að flytja erlendis til að taka þátt og það er ekkert mál að okkar hálfu. Við gætum gert það með litlum fyrirvara meira að segja og höfum alltaf lagt áherslu á það. Þrátt fyrir að við höfum komið þessu skýrt á framfæri virðist samt vera litið fram hjá okkur. Maður er farin að fá það á tilfinninguna eftir að hafa hrærst í þessu klíníska tilrauna umhverfi síðustu ár að Ægir hafi ekki verið tekinn inn hingað til því hann búi einfaldlega í röngu landi. Það er að minnsta kosti það sem er verið að segja mér af reyndari foreldrum Duchenne drengja erlendis. Strákarnir sem búa í landinu þar sem verið er að gera tilraunirnar ganga fyrir virðist vera því miður. 

Þetta finnst mér auðvitað ótrúlega ósanngjarnt ef rétt er reynist. Hvers á Ægir að gjalda að búa á Íslandi? Á hann þá ekki sömu tækifæri og aðrir á meðferð? Eigum við að flytja bara í eitthvert land upp á von og óvon að komast inn þar og hvaða landi ætti hann mesta möguleika í? Það er verið að framkvæma tilraunina á nokkrum stöðum í Bandaríkjunum og líka í Kanada, Spáni og Belgíu. Hvernig í ósköpunum eigum við að geta vitað hvert á að fara? Þegar ég heyrði þetta þá var það samt það fyrsta sem mig langaði að gera, flytja bara eitthvað og taka áhættuna. Allt er betra en sitja hér með von í brjósti en eiga í raun engan möguleika. Það er alveg hrikalega sárt og bara óásættanlegt.

Það er alveg ótrúlega erfitt að taka ákvarðanir í þessu. Hvað eigum við að gera? Eigum við að fara á byrjunarreit aftur og byrja aftur að reyna að fá lyfið sem Lyfjanefnd neitaði okkur um fyrir Ægi? Segjum sem svo að það tækist en svo myndum við allt í einu fá boð um að koma í tilraun erlendis. Þá þyrfti Ægir að hætta á lyfinu og skola það út í 6 mánuði áður en hann kæmist inn, væri hann þá búin að missa af því tækifæri að komast í þá tilteknu tilraun? Eigum við kannski bara að drífa okkur í að flytja til Bandaríkjanna og á hvaða stað í Bandaríkjunum eigum við mesta möguleika? Svona spurningar fljúga um hugann á manni endalaust og maður verður alveg ruglaður á þessu. Hvernig á maður að taka svona ákvarðanir fyrir barnið sitt? Þessi óvissa er óbærileg stundum og á meðan er litli kúturinn minn farin að finna fyrir því að hann er að verða stífari og hægari. Mömmuhjartað öskrar á hjálp. Þetta er svo erfið staða að vera í og maður er svo einn í þessu eitthvað. Það er líka afar erfitt að fá svör frá aðilunum sem framkvæma tilraunina, þetta er endalaus bið og allt ferlið í þessu er svo óskýrt

Þrátt fyrir þetta mótlæti ætla ég að halda áfram að trúa að okkur muni takast þetta og ég veit það eitt að ég mun aldrei gefast upp að berjast fyrir Ægi minn. Ég neita að trúa því að hann geti ekki fengið hjálpina sem hann þarf bara af því að hann býr á Íslandi. 

Ást og kærleikur til ykkar

Hulda Björk Svansdóttir

Hulda Björk Svansdóttir

Hulda heiti ég og er tilfinningabúnt sem elskar að syngja, dansa og dunda við það að semja ljóð líka annað slagið. Ég á eiginmann til 16 ára og saman eigum við yndislega tvíbura sem eru 18 ára og 8 ára dreng sem er hetjan mín og aðal ástæða þess að ég skrifa hér. Hann þjáist af alvarlegum vöðvarýrnunarsjúkdómi sem kallast Duchenne. Mig langar að vekja vitund um hvernig það er að eiga langveikt barn og lifa með því. Ég hef brennandi ástríðu fyrir því að gleðja aðra, fá fólk til að brosa og láta gott af mér leiða.

Meira