c

Pistlar:

2. september 2021 kl. 8:41

Hulda Björk Svansdóttir (huldabjorksvansdottir.blog.is)

Allt er mögulegt

Ef það er eitthvað sem ég hef lært síðan hann Ægir greindist þá er það að allt er mögulegt, ég tala nú ekki um ef maður hefur ástríðu. Eftir að ég fór að brasast í öllu því sem ég er að gera eins og til dæmis heimildarmyndinni okkar Einstakt ferðalag þá hef ég séð að það er hægt að áorka svo miklu og láta drauma sína rætast ef maður bara fer af stað. Ein manneskja getur skipt miklu máli og gert ótrúlega hluti. Aðalmálið er einmitt að taka fyrsta skrefið og vera ekki hræddur um að það sé ekki nógu fullkomið því framkvæmd er betri en fullkomnun.

Þetta er allt spurning um hugarfar, að hafa trú á sér, gefast aldrei upp og fá gott fólk í lið með sér. Það er vissulega hægara sagt en gert en ef maður getur fundið ástæðuna sína, hvatninguna sína eða hvað þið viljið kalla það sem hvetur mann áfram þá mun það vera bensínið sem drífur mann áfram. Ég átti til dæmis þennan draum að gera heimildarmynd um Ægi og Duchenne og með því að taka eitt lítið skref varð þessi draumur að veruleika. Hver hefði getað trúað því ég gæti komið af stað slíku verkefni? . Ég sjálf hefði aldrei trúað því fyrir nokkrum árum að minnsta kosti en svona er nú lífið. Erfið lífsreynsla getur gefið manni einhvern kraft og þor sem er erfitt að útskýra og ég hugsaði með mér að fyrst ég fann þennan kraft að þá yrði ég að gera eitthvað gott við hann. Ég ætti að vera að gera það sem ég er að gera, það er minn tilgangur.

Það eina sem ég gerði samt í raun og veru varðandi Einstakt ferðalag verkefnið var að fá hugmyndina og hringja svo eitt símtal í vini mína hjá Góðvild, fá þau til samstarfs og svo leiddi eitt af öðru. Það er einmitt svona sem ævintýrin gerast, maður þarf bara að taka þetta skref.  Það er að sjálfsögðu afar mikilvægt að hafa gott fólk með sér eins og ég sagði og þetta verkefni Einstakt ferðalag hefði aldrei orðið til ef ekki væri fyrir Góðvild og alla okkar frábæru stuðningsaðila.  Auðvitað ganga ekki allar hugmyndir upp hjá manni en þegar einar dyr lokast þá er bara að opna aðrar. Ef eitthvað gengur ekki upp getur maður þó verið sáttur því maður reyndi að minnsta kosti.

Það er nefnilega svo góð tilfinning þegar maður finnur að maður getur haft áhrif og gert eitthvað gott. Ein ástæðan fyrir því að ég er líka að gera allt sem ég er að gera í þessu öllu saman er að  ég vil að Ægir sjái að ég gefst ekki upp þótt móti blási, ég reyni alltaf að gera mitt besta og þannig get ég vonandi verið góð fyrirmynd fyrir hann og börnin mín. Þannig að ef þú sem ert að lesa þetta átt draum, farðu þá af stað, taktu skrefið. Auðvitað eru aðstæður allra ólíkar og miserfiðar en þú getur látið ótrúlega hluti gerast ef þú bara vilt það því allt er mögulegt.

Ást og kærleikur til ykkar

Hulda Björk Svansdóttir

Hulda Björk Svansdóttir

Hulda heiti ég og er tilfinningabúnt sem elskar að syngja, dansa og dunda við það að semja ljóð líka annað slagið. Ég á eiginmann til 16 ára og saman eigum við yndislega tvíbura sem eru 18 ára og 8 ára dreng sem er hetjan mín og aðal ástæða þess að ég skrifa hér. Hann þjáist af alvarlegum vöðvarýrnunarsjúkdómi sem kallast Duchenne. Mig langar að vekja vitund um hvernig það er að eiga langveikt barn og lifa með því. Ég hef brennandi ástríðu fyrir því að gleðja aðra, fá fólk til að brosa og láta gott af mér leiða.

Meira