c

Pistlar:

4. mars 2021 kl. 10:00

Hulda Björk Svansdóttir (huldabjorksvansdottir.blog.is)

Ég vel ljósið

Hvert er ég komin eiginlega? Þetta er spurning sem hefur oft skotið upp kollinum hjá mér eftir að Ægir greindist með Duchenne. Lífi mínu hefur verið snúið á hvolf og ég lenti í minni alverstu lífsreynslu. Þessi erfiða vegferð hefur þrátt fyrir allt leitt mig að minni ástríðu sem er að reyna að veita öðrum von og hvatningu já hreinlega gleðja aðra. Það gefur mér svo dásamlega mikið að reyna það.

Hver hefði trúað því að hingað væri ég komin, búin að stofna góðgerðarfélagið Hope with Hulda, farin að selja ljóðin mín á vefsíðunni minni og með svo miklu stærri drauma sem mig langar að framkvæma og mun framkvæma. Ég er svo ótrúlega stolt af sjálfri mér þó ég segi sjálf frá. Að láta ekki bugast heldur hafa náð að vinna þokkalega úr þessari erfiðu lífsreynslu og gera eitthvað gott úr henni. Þess vegna finnst mér svo mikilvægt það sem ég er að gera, að tala um þetta allt saman. Að deila með öðrum að maður þarf ekki að láta svona erfiða lífsreynslu skilgreina sig heldur frekar snúa vörn í sókn og vinna sem best úr aðstæðunum Ég ætla ekki að láta Duchenne skilgreina mig né líf mitt, ég ætla að skilgreina það sjálf. Ég vel að hugsa jákvætt og sjá glasið hálffullt en ekki hálfftómt. Eins og ég hef sagt áður þá er þetta allt spurning um viðhorf. Það er enginn að segja að þetta sé auðvelt eða sanngjarnt því það er það svo sannarlega ekki og það munu verða dagar þar sem ég mun örugglega bogna en ég ætla ekki að leyfa Duchenne að brjóta mig.

Allt sem drepur mann ekki herðir mann og það að ganga í gegnum erfiða lífsreynslu mótar mann mjög mikið. Þetta hljómar allt mjög klysjukennt en er engu að síður dagsatt. Mér finnst svo mikilvægt að nýta kraftana mína til þess að veita von og kærleika út í heiminn og þess vegna er ég að þessu öllu saman. Ég er sannfærð um að fyrst ég hef kraftinn til að vera að þessu þá er mér ætlað að vera að gera einmitt þetta. Það er ekki víst að allir skilji þetta og sumum kann að finnast þetta fáranlegt, að Ægir hafi þurft að fá Duchenne til að ég gæti sinnt ástríðunni minni. Þetta er auðvitað ekki þannig en ég trúi því samt að hann hafi verið sendur til mín til að kenna mér, það er greinilega margt sem ég á eftir að læra í lífinu og eitthvað sem ég á að vera að gera við þetta allt saman. Það verður bara að vera einhver tilgangur með þessu öllu saman því annars er þetta svo grimmdarlegt eitthvað, að lítið barn þurfi að þjást svona og til hvers? Kannski get ég nýtt mína reynslu til að hjálpa einhverjum úti í hinum stóra heimi og ef ég get hjálpað einni manneskju þá hlýtur það að vera gott, þá er kannski tilganginum náð.

Hver og einn fer sína leið þegar hann tekst á við áföll í lífinu og vissulega er ekkert rétt eða rangt í því hvernig fólk bregst við. Það eru auðvitað ekki allir sem myndu vilja fara sömu leið og ég en það er alltaf hægt að gera eitthvað og allir hafa eitthvað til að gefa. Þannig að við þig sem ert að lesa þetta vil ég segja að þú getur fundið þína leið og breytt þínum aðstæðum. Finndu það sem gleður þig og gefur þér orku og kærleika og þá geta stórkostlegir hlutir gerst.

Við erum öll ólík en eitt eigum við sameiginlegt og það er að við höfum öll val um það hvernig við spilum úr þeim spilum sem okkur er gefið. Val um að gefast upp, val um að láta mótlæti skilgreina okkur, val um að vera bitur og reið, val um að berjast, val um að sjá það góða og jákvæða í lífinu og sjá ný tækifæri og það er mitt val. Ég vel ljósið og jákvæðnina.

Líf okkar stjórnast af því hvað við veljum svo hvað ætlar þú að velja? Ætlar þú að velja myrkrið eða ljósið? Ef þú vilt fylgja mér á vegferðinni minni þá bendi ég á heimasíðuna mína hopewithhulda.com

Mörgum finnst lífið ósanngjarnt vera

Gleyma að hugsa hvað hægt er að gera

Í myrkri eða ljósi, þitt er að velja

Þú einn getur ráðið hvar þú kýst að dvelja

Hulda Björk ´20

 

Ást og kærleikur til ykkar

Hulda Björk Svansdóttir

Hulda Björk Svansdóttir

Hulda heiti ég og er tilfinningabúnt sem elskar að syngja, dansa og dunda við það að semja ljóð líka annað slagið. Ég á eiginmann til 16 ára og saman eigum við yndislega tvíbura sem eru 18 ára og 8 ára dreng sem er hetjan mín og aðal ástæða þess að ég skrifa hér. Hann þjáist af alvarlegum vöðvarýrnunarsjúkdómi sem kallast Duchenne. Mig langar að vekja vitund um hvernig það er að eiga langveikt barn og lifa með því. Ég hef brennandi ástríðu fyrir því að gleðja aðra, fá fólk til að brosa og láta gott af mér leiða.

Meira