c

Pistlar:

13. júní 2022 kl. 11:20

Guðrún Arnalds (gudrundarshan.blog.is)

Stefnumót við tímann

Sumir hlutir teygja á tímanum og færa mig nær óendanleikanum. Eins og þegar ég hlusta á fuglasöng. Á þytinn í trjánum. Djúpt og innilegt faðmlag getur líka gefið tilfinningu fyrir tímaleysi. Við þekkjum öll tilfinninguna og einhvers staðar innst inni vitum við að þetta er það eina sem skiptir máli í lífinu. Að njóta andartaksins. Að vera með því sem við upplifum af heilum hug. Ekkert annað er í raun nær lífinu. 
 
Stundum, þegar ég ætla að koma miklu í verk í vinnunni, heima hjá mér eða fyrir fólkið í kring um mig, þá dreg ég úr iðkuninni minni. Ég geri minna jóga, hætti að gera skapandi hluti eins og að dansa, syngja eða skrifa og ég hugleiði minna. Stundum tel ég mér trú um að skapandi tjáning og sjálfsnæring séu léttvægari en önnur verkefni og að þau verði að bíða þess að ég hafi meiri tíma. Ég sannfæri sjálfa mig um að hvorki ég né aðrir taki eftir því ef ég sleppi þeim.
 
Ég fer að einbeita mér að því að fara í gegn um verkefnalistana mína og nýt þess að tikka í boxin. En til lengdar finn ég alltaf að það vantar eitthvað. Það verður allt svo innantómt ef ég er á sífelldum hlaupum á eftir tímanum og gef mér ekki tíma til að finna hann umlykja mig. 

Þegar ég hugleiði þá fylgir oft tilfinning fyrir tímaleysi. Stundum bara í stutta stund. En það hvetur mig til að halda áfram að eiga stefnumót við sjálfa mig og við uppsprettuna innra með mér. Það geta allir lært að hugleiða og það eru til form af hugleiðslu sem eru mjög aðgengileg fyrir þá sem hafa litla eða enga reynslu af hugleiðslu. 

Ég býð þér að taka þátt í hugleiðsluferðalagi með mér yfir sumarmánuðina. Hugleiðslan sem við gerum hentar vel fyrir óvana og er um leið djúp iðkun fyrir bæði vana og óvana. Hún byggir á nærandi öndunaræfingu og möntrusöng. Þú færð aðgang að upptökum í  mismunandi tímalengd til að fylgja eftir því hversu mikinn tíma þú ætlar að gefa þér þann daginn. Rannsóknir sýna  að það er ekki lengd hugleiðslunnar sem skiptir aðalmáli heldur hversu oft og reglulega við hugleiðum. Hugleiðsla í 3 mínútur hefur mjög djúp áhrif ef hún er gerð daglega. 

Guðrún Arnalds, jógakennari, hómópati, markþjálfi og  leiðbeinandi í Fókusing, aðferð til að hlusta á visku líkamans.  

Andartak jóga- og heilsustöð

andartak@andartak.is

Guðrún Arnalds

Guðrún Arnalds

Guðrún Arnalds starfar sem jógakennari, markþjálfi og leiðbeinandi í Fókusing - aðferð til að hlusta á líkamann og sína innri veröld. Hún rekur jóga- og heilsustöðina Andartak. Hún hefur starfað við heildræna heilsu í 30 ár og kennt jóga í 20 ár og hefur viðað að sér þekkingu og reynslu á þessum sviðum og á öðru því sem snýr að þroskaferðalagi manneskjunnar. 

www.andartak.is

Meira