c

Pistlar:

28. febrúar 2020 kl. 13:48

Gunna Stella (einfaldaralif.blog.is)

Drífðu þig heim kona!

Nokkur ótti hefur gripið um sig á Íslandi og í heiminum öllum. Fólk óttast veiru sem oftast er kölluð Kórónaveira en ber víst nafnið Covid 19. Fréttir um veiruna og hvaða löndum hún hefur greinst í taka mikið pláss í fréttatímum.

Ég skil þennan ótta vel. Ég skil að fólk óttist hið óþekkta. Mér er minnisstætt þegar fuglaflensan greindist í fyrsta sinn og ég var ung móðir. Um leið og ég heyrði fréttina var ég búin að skipuleggja flótta. Ég var búin að skipuleggja í huga mér hvar ég og fjölskylda mín myndum fara í einangrun ef svo ólíklega vildi til að flensan  kæmi til Íslands. Það sem ég vissi ekki þá var að kvíðinn var að stjórna mér.

Kvíði skiptist nefnilega í nokkur stig og í ótta mínum og angist vildi ég flýja og forðast aðstæður. Það er eðlilegt að svo mörgu leiti. Við höfum innbyggt kerfi í okkur sem fær okkur til að forðast hættur. Í þessum skrifuðu orðum er ég stödd á Tenerife með hópi kvenna. Í fyrra þegar ég fór í svipaða ferð og konur úr ferðinni deildu myndum á samfélagsmiðlum rigndi yfir þær jákvæðum kveðjum þar sem fólk óskaði þess að þær myndu njóta í sólinni. Í þessari ferð er það öðruvísi. Fólk sendir skilaboð, biður okkur að fara varlega og passa okkur á veirunni. Drífa okkur heim og þar fram eftir götunum. Það er svo sem ekkert skrítið þar sem flestir fréttamiðlar fjalla um lítið annað en Kórónaveiruna og um hana er líka mikið rætt á samfélagsmiðlum. Sem aldrei fyrr hafa börn aðgang að fréttaveitum og samfélagsmiðlum og það sem öll þessi umfjöllun getur valdið  börnum ótrúlega miklum ótta. Það er mikilvægt að hvetja fólk til handþvottar og hreinlætis til þess að forðast að smitast af veiru sem þessari en það er líka ótrúlega mikilvægt að passa upp á andlega líðan þjóðarinnar og þá sérstaklega barnanna okkar. 

 

Ég var ótrúlega ánægð þegar ég rakst á síðu hjá Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin WHO þar sem hvatt er til þess að huga að andlegu jafnvægi fólks á öllum aldri nú þegar umræðan um veiruna er í hámæli. Þar segir eftirfarandi: 




  1. Það er eðlilegt að vera sorgmæddur, stressaður, óöruggur, hræddur eða reiður á erfiðleikatíma. Að ræða við fólk sem þú treystir getur hjálpað. Hafðu samband við vini og vandamenn.
  2. Ef þú verður að vera heima skaltu viðhalda heilbrigðum lífsstíl - þar með talið góðu mataræði, svefni, hreyfingu og félagslegum samskiptum við ástvini heima og með tölvupósti og síma. 
  3. Fáðu staðreyndir. Safnaðu upplýsingum sem hjálpa þér að ákvarða áhættu þína nákvæmlega svo þú getir gripið til hæfilegra varúðarráðstafana. Finndu trúverðuga heimild sem þú getur treyst, svo sem vefsíðu WHO eða, heilbrigðisstofnun sveitarfélaga eða ríkis.
  4. Takmarkaðu áhyggjur og óróleika með því að draga úr þeim tíma sem þú og fjölskylda þín eyðir í að horfa á eða hlusta á umfjöllun fjölmiðla sem þér finnst valda þér og ykkur uppnámi.
  5. Nýttu þér reynslu sem þú hefur upplifað áður, sem hefur hjálpað þér að takast á við erfiðleika í fortíðinni og notaðu þessa færni til að hjálpa þér að hafa stjórn á tilfinningum þínum á þessum krefjandi tíma.

 

Ég held að það sé mikilvægt að við tölum meira við börnin okkar um að það sé eðlilegt að vera stressaður og upplifa óöryggi. Til þess að hjálpa þeim er samt mikilvægt að við ölum ekki á ótta og takmörkum áhyggjur þeirra með því að reyna að hjálpa þeim að takast á við óttann. Til þess að hjálpa þeim að horfast í augu við óttann og hjálpa þeim að upplifa frið í hjarta þurfum við að vanda orðaval okkar og takast á við óttann í eigin lífi. Við þurfum líka að vanda skrif okkar og reyna að verða ekki hugsjúk eða fá þráhyggju gagnvart þessari leiðinlegu veiru. 

 

Þér er velkomið að fylgjast með ferðinni á Instagram og Facebook. 

Friðar og kærleikskveðja, 

 

Gunna Stella 



Gunna Stella

Gunna Stella

Gunna Stella starfar sem Heilsumarkþjálfi, kennari og fyrirlesari. Hún er fjögurra barna móðir og eiginkona sem er búsett á Selfossi.  Gunna Stella sérhæfir sig í því að hjálpa einstaklingum  að minnka hraðann, njóta lífsins og finna leiðir til þess að einfalda lífið, heilsuna og heimilið. Hennar helstu áhugamál eru ferðalög, lestur, gæðastundir með vinum og fjölskyldu og góður nærandi matur. Nánari upplýsingar má finna á www.einfaldaralif.is og á Instagram:gunnastella

 

Meira