c

Pistlar:

23. maí 2016 kl. 18:51

Árelía Eydís Guðmundsdóttir (arelia.blog.is)

Gjafir

Sumar gjafir eru svo dásamlegar að þær sitja í manni lengi, lengi. Ein slík gjöf er góð saga sem kennir manni eitthvað um lífið, mann sjálfan og aðra. Önnur gjöf er þegar fólk treystir manni fyrir sér og gefur manni hlutdeild í lífi sínu. 

Ein stærsta gjöf sem maður gefur er athygli og tími. Þegar maður hlustar með athygli fær maður innsýn í sál fólks og þá gerast töfrarnir. Þjáningin verður léttbærari, vonbrigðin ekki svo mikil og sigurinn sætari eða gleðin sannari og ástin dýpri. Samvera getur verið gjöf eða hlekkur. Faðmlag getur verið náið eða óþægilegt, allt eftir því hver ásetningurinn er. Fólk getur orðið dýpra og vaxið með reynslu eða samansaumaðri - allt eftir ásetningi. Gjöfin er að dýpka svo aðrir geti lært og fengið aðgang að gjafmildi.

En það er líka gott að gefa sjálfum sér gjafir. Tíma til að vera án allrar ábyrgðar, án markmiða, án skuldbindingar. Bara vera og gera ekkert nema bora tánum í sæng, sjó eða sand. Horfa á grasið vaxa, rigningu falla eða sólina skína. Ég ætla að gefa mér þá gjöf að fara í heila viku ein á stað á landinu sem er nýr fyrir mér í heila viku og skrifa og gera ekki neitt. Heilmikill gjöf en vonandi verður hún til að ég geti verið enn meira til staðar fyrir þá sem eru mér nærri þegar ég kem aftur. Maður kemur alltaf aftur og tekur upp ábyrgðina og skuldbindingarnar - soldið eins og að klæða sig aftur í vinnufötin. Enda væri enginn gjöf ef tíminn væri ekki öðruvísi nýttur en venjulega. 

Gjafir hafa tilhneigingu til að vaxa og öðlast sjálfstætt líf eins og þegar maður heyri góða sögu og segir næsta manni sem segir næsta manni. En til þess að geta gefið verður maður að læra ánægjuna af því að gefa sjálfum sér af hreinu hjarta og án þess að ætlast til einhvers í staðinn! Þá er það ekki gjöf heldur skiptidíll sem er eitthvað allt annað.