c

Pistlar:

13. febrúar 2015 kl. 10:18

Árelía Eydís Guðmundsdóttir (arelia.blog.is)

Ómótstæðilegir karlmenn

"Ég tek ekki þann slag." Minn heittelskaði horfði á mig með uppgjöf í augum. "Hvað meinar þú?" Svaraði ég, "það verður allt vitlaust!". Hann leit á mig áhyggjufullur. Slagurinn stendur um að fara út á land á laugardagskvöld þar sem er ekki sjónvarp. Allir sem eiga börn á aldrinum 5-15 ára vita að það er mikilvægt að horfa saman á úrslitakvöld söngvakeppninnar. "Er ekki hægt að fá pung? (ég átti nú við tölvupung svo það sé á hreinu...)". "Ég tek ekki sénsinn..". Þetta er maður sem vílar ekki fyrir sér að vippa sér upp á þak, stjórna mannvirkjagerðum, gera upp hús og híbýli og almennt séð standa fyrir máli sínu. En þarna játaði hann sig sigraðan.

Sama dag kom í kaffi, einn frændinn sem var á sjó mest allann sinn starfsferil. Hann lagði sixpensarann á eldhúsborðið og við fengum okkur kaffi. Ræddum um dagana á sjó, þegar hann var stundum allt að 60 daga á sjó, út á ballarhafi, "það var erfitt", sagði hann og leit út um gluggann. Ég spurði hann hvort hann hefði ekki einhvern tímann verið hræddur í vondum veðrum, hann leit á mig "hræddur! ég var alltaf skíthræddur, hangandi í köðlunum eða þegar maður hoppaði upp úr kojunum í veltingnum." Nú, sagði ég hissa og spurði af hverju hann hefði þá verið svona lengi. Hann leit á mig eins og ég væri frá annarri plánetu, "nú maður hafði ekkert val, varð að sjá fyrir sínum."

Ég verð að segja að ég tek ofan hattinn minn fyrir körlum þessa lands, og annarra, þeir eru flestir hvundagshetjur sem á hverjum degi gera sitt fyrir fjölskyldur sínar og aðra. Þeir fara á sjó, byggja brýr og vegi, eru í tollinum (þar er pabbi minn) og láta sig hafa það. 

Ég fór á Þorrablót um daginn og þar kom karl einn til mín og sagði mér að ég væri búin að eyðileggja konuna hans. "Hvað segir þú?" "Já, hún kom heim af námskeiði hjá þér og sagði mér að hún væri ómótstæðileg og að núna þyrftum við að tala saman. Síðan hefur hún ekki hætt að tala!" Annar karl sem þetta heyrði leit á mig "getur þú ekki styrkt okkur karlana? Konurnar eru hvort sem er að taka allt yfir.." Ég gat ekki annað en hlegið og fór svo hugsandi út í nóttina eftir skemmtilegt kvöld. Um leið og ég labbaði fram hjá manninum sem átti eyðilögðu konuna hvíslaði hann að mér "mér hefur alltaf fundist hún ómótstæðileg."

Mér finnst líka karlar ómótstæðilegir, þeir bjarga, vinna, laga, sinna og eru almennt dásamlegir. Alltaf þegar ég þarf á því að halda hugsa ég til handa afa míns heitins sem gat strokið burt alla slæma hluti með því að strjúka mér um vangann. Eða pabbi sem vann stundum á þremur stöðum til að sjá fyrir okkur. Tengdapabbar og afar, bræður og frændur, vinir og vandamenn. Samstarfsfélagar sem vilja leggja sig fram og eru tilbúnir til að takast á við erfiðar aðstæður. Þessir menn eru ómótstæðilegir og maður getur ekki annað en dáðst að þeim og notið þess að hafa þá í kringum sig. 

Ætli ég verði ekki að horfa á söngvakeppnina á laugardagskvöldið, ekki með (tölvu)pung en með tjallinn hrjótandi og krakkana spennta. Síðan tökum við slaginn um hvað megi hringja oft og þá mun ég ráða!